145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[11:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Óskað var eftir því í umræðu um þetta mál í fyrradag að hæstv. utanríkisráðherra mundi staðfesta hvaða gildi sá neyðarhemill sem skrifaður hefur verið, sú sérstaka bókun sem á að kynna sameiginlegu EES-nefndinni, hefði í hugum annarra ráðherra innan EFTA og annarra aðila innan EES. Ekki hefur verið orðið við þeirri beiðni. Ég ætla að fá að leyfa mér að benda hæstv. forseta á að það er mjög eðlileg beiðni að hæstv. ráðherra staðfesti þennan skilning, því að samkvæmt málatilbúnaði meiri hlutans er þetta lykilatriði í því að hægt sé að samþykkja málið.

Svo verð ég að segja að mér finnst líka einkennilegt að heyra hæstv. félagsmálaráðherra vitna til þess þegar spurt er um framsalsákvæði að stjórnarskrárnefnd hafi skilað þremur ákvæðum, og hver viti hvað verði um þau í þinginu.

Hæstv. forseti. Allir vita að meiri hlutinn stöðvaði það að afgreitt yrði eða lagt til ákvæði um framsal valdheimilda á ákveðnu sviði. Það var beint í kjölfar þess (Forseti hringir.) að landsfundur Framsóknarflokksins lagðist gegn slíku ákvæði. Hér kemur fólk og talar eins og skoða megi hvað verði um málið í þinginu. (Forseti hringir.) Þetta er ástæða þess að við erum í þeirri stöðu sem við erum í núna, herra forseti.