145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[11:14]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Síðasta haust komu ordrur frá landsfundi Framsóknarflokksins inn í stjórnarskrárnefnd um að ekki væri ástæða til að fjalla meira um framsalsheimildir í stjórnarskrárvinnunni, það væri ekki pólitískur stuðningur við slíkt og þess vegna var því hætt. Enginn rökstuðningur fylgdi þessu, þetta var bara niðurstaða landsfundarins. Þess vegna er auðvitað háðulegt að menn ætli hér í einhverri hraðafgreiðslu í þinginu að hunsa álit frá einum helsta fræðingi landsins á þessu sviði. Og þingmenn Framsóknarflokksins, þá væntanlega í algerri andstöðu við landsfund sinn, ætla að taka þátt í því að framselja valdheimildir úr landinu. Það er með ólíkindum. Ætla menn í alvöru ekki að taka einn snúning enn í þessu máli? Verður einhver skaði af því? Liggur eitthvað á? Eru einhverjir úti í Brussel sem bíða eftir Framsóknarflokknum í þessum efnum?