145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[11:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Vegna orða hæstv. forseta áðan um að málið hefði verið unnið lengi í þinginu er rétt að það hefur verið margar vikur í vinnslu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna þess að það var vanbúið af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar það kom inn. Við höfum gert á því þær úrbætur í samvinnu við ríkisstjórnina að það er nokkurn veginn tryggt núna að ekki sé verið að takmarka vald Íslands til að grípa til neyðarráðstafana við alvarlega efnahagsvá. Málið var þannig útbúið af hálfu ríkisstjórnarinnar að það var fullkomin óvissa um það hver áhrif þetta mál hefði á fullveldi þjóðarinnar ef við stæðum aftur frammi fyrir aðstæðum eins og þeim sem voru í hruninu haustið 2008.

Eftir stendur að umræðan í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur ekki snúist ítarlega um þennan þátt málsins, sem er hvort stjórnarskráin rúmi þetta framsal. Ég tel að hún geri það ekki. Ég er sammála Björgu Thorarensen og tel einfaldlega að ef þetta mál gengur hér í gegn með atkvæðum meiri hluta Alþingis sé verið að breyta skilningi á stjórnarskránni þannig að við munum ekki þurfa að breyta henni ef við göngum í Evrópusambandið. Það mun aldrei þurfa framsalsákvæði ef þess þarf ekki nú.