145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[11:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki betur en að forseti verði að fresta þessari atkvæðagreiðslu. Ég bið forseta að íhuga mjög vel þær röksemdir sem hér hafa komið fram sem eru mjög alvarlegar. Við erum ekki að tala um hvaða mál sem er, við erum að tala um það að rökstutt er af einum helsta sérfræðingi Íslands í stjórnskipunarrétti að hér verði ekki lengra komist í því að teygja stjórnarskrána. Ég held í ljósi þess að þetta kom fram í gær að við verðum einfaldlega að fresta þessari atkvæðagreiðslu, þótt ekki sé nema fram eftir degi, þannig að fólk fái ráðrúm utan þingsalarins til að fara yfir þessi mál og kanna með hvaða hætti rétt sé að Alþingi taki næstu skref í málinu. Það er óábyrgt að horfa í hina áttina þegar svona alvarlegar athugasemdir hafa komið fram frá þeim sérfræðingi, það er óábyrgt af hálfu Alþingis, það er óábyrgt af hálfu forseta og ég skora á forseta að fresta þessari atkvæðagreiðslu í ljósi stöðunnar.