145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[11:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er alveg rétt að málið var afgreitt á grundvelli ítarlegrar rannsóknar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. En það eru ný tíðindi í málinu. Þau gerðust í gær. Þá gerist það að Björg Thorarensen stjórnskipunarfræðingur, sem er höfundur að hugmynd að leið sem var útfærð, kemur og segir: Leiðin er ekki útfærð með þeim hætti að stjórnarskráin þoli það. Um er að ræða framsal, nýtt framsal, segir hún, á nýjum sviðum.

Við stöndum hér allt í einu andspænis þessu. Við höfum svarið eið að stjórnarskránni, líka hæstv. forseti. Ber okkur þá ekki að minnsta kosti að leita af okkur grun? Ég spurði hæstv. starfandi utanríkisráðherra í morgun: Hvaða skaði er skeður þó að menn bíði með þetta mál fram í næstu viku? Það er enginn skaði skeður. Eini skaðinn sem er skeður er sá að ekki verður hægt að afgreiða málið á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það er það eina sem gerist, ekkert annað.

Eigum við að láta það hindra okkur í því að uppfylla eið okkar að stjórnarskránni og leita af okkur grun? Meira að segja hv. þm. Brynjar Níelsson, fyrrverandi formaður Lögmannafélags Íslands, sagði hér að málið væri á svargráu svæði, sem er næsti bær við helsvart.