145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[11:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta mál var rætt hér á þriðjudagskvöld, þetta er mál sem Norðmenn afgreiddu í júní og var skilgreint sem meiri háttar framsal valdheimilda samkvæmt norsku stjórnarskránni. Við fáum hér álit frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem hv. utanríkismálanefnd byggir sitt álit á, þar sem kemur fram að mikill ágreiningur er innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um hvort ákvæði standist stjórnarskrá og sagt er að um þetta atriði muni fást pólitísk niðurstaða í atkvæðagreiðslu í þingsal en dómstólar eigi um það síðasta orðið. Þetta er álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, herra forseti. Síðan fáum við í dag, eða í gær, álit Bjargar Thorarensen sem hlýtur að vekja fólk til umhugsunar a.m.k. um að þetta er ekki mál sem á að afgreiða á einhverri hraðferð í umræðu í þingsal á þriðjudagskvöldi og skiptir máli að við afgreiðum málið af ábyrgð. Ég ítreka að mér finnst fullkomlega eðlilegt að við gefum málinu þann tíma að nefndin taki það aftur til skoðunar því að (Forseti hringir.) þetta er stórmál, herra forseti. Ég velti fyrir mér hvar formaður Sjálfstæðisflokksins sé í þessari umræðu, sem ítrekað hefur kallað eftir framsalsákvæði í stjórnarskrá til að unnt sé að eyða (Forseti hringir.) þessum gráu svæðum. Ýmsir aðrir hv. þingmenn þess flokks tala með sama hætti en það heyrist ekki mikið í þeim hér.