145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

[11:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða mál sem er mjög stórt en kannski ekki mikið rætt, sem er samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega í Reykjavík. Við sem flettum Fréttablaðinu í morgun sáum frétt með fyrirsögninni: „Umferðarmál í Reykjavík í salti“. Þar er vakin athygli á þeirri staðreynd, sem er ekki mikið í umræðunni, að slysamestu vegirnir eru á höfuðborgarsvæðinu og reyndar í Reykjavík. Það þýðir ekki að ræða samgöngumál án þess að nálgast þetta mál sérstaklega. Við þurfum að komast á milli staða í borginni með öruggum og greiðum hætti, hvort sem það er gangandi, hjólandi eða með strætó. Við gerum það ekki nema fylgt sé skýrri stefnu í samgöngumálum, stefnu sem er byggð á bestu gögnum og upplýsingum.

Virðulegi forseti. Þar verða borgaryfirvöld og ríki að vinna saman. Það er ekki ásættanlegt að það verði jafn alvarleg slys og raun ber vitni í Reykjavíkurborg. Mikil umferð er ekki ávísun á alvarleg slys. Ég vil vekja athygli á því að skilgreiningin á alvarlegu slysi er sú að viðkomandi einstaklingur slasist og nái aldrei fullum bata. Það er allt frá því að viðkomandi sé í hjólastól eða hljóti meiri örkuml eða annað sem við getum sagt að sé ekki eins alvarlegt og hafi ekki jafn mikil áhrif á líf hans.

Þetta snýst ekki bara um umferðaröryggi. Þetta snýst m.a. um það að mengun vegna samgangna er of mikil í borginni. Við erum t.d. með allar þessar umferðarhindranir núna, bílar að stoppa og halda áfram, og þá eykst mengunin. Til þess að setja það í samhengi þá er vegurinn frá Grensás og að Húsasmiðjunni jafn langur og frá Grensás og að Njarðargötu en eyðslan og mengunin er 300% meiri á leiðinni þar sem þarf að stoppa jafn oft og raun ber vitni.

Það er augljóst að setja þarf fjármagn í þessa hluti og það er auðvitað af skornum skammti og verður aldrei nóg. En þetta snýst líka um nálgun. Tökum sem dæmi göngubrýr sem kosta að vísu mikið en ekki í samanburði við aðra hluti þegar við stoppum á leiðinni til og frá vinnu, við sem erum í efri hluta borgarinnar, sem þyrfti ekki að vera. Sömuleiðis væri æskilegt þótt ekki væri nema að opinberir aðilar samræmdu opnunartíma sinn þannig að álagstímar yrðu ekki jafn miklir og þeir eru núna.

Einhverra hluta vegna hafa samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu gengið út á það að menn togast á um samgöngumáta. Allir samgöngumátar eiga rétt á sér, við eigum að geta hjólað til og frá vinnu, gengið til og frá vinnu, notað strætó, en sömuleiðis notað einkabílinn. Það er ekkert samasemmerki á milli þess að vilja vistvænar eða heilsueflandi samgöngur og að vera á móti einkabílum. Einkabíllinn er ekki að fara neitt. Þjóðfélag okkar mun ekki breytast þannig að hann verði óþarfur, það er langur vegur frá. Það sem við þurfum að láta hverfa eru þessi alvarlegu slys. Ég vil þess vegna heyra sjónarmið hæstv. innanríkisráðherra. Ég ætlaði að vísu að ræða fleiri hluti sem snúa líka að öryggi, sem eru leiðir út ur borginni og þá er ég að vísa í Sundabraut og Skerjabraut. Það er alveg ljóst að með fjölgun íbúa og fjölgun ferðamanna eykst álagið að öllu óbreyttu. Við þurfum að nálgast það mál sérstaklega.