145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

[11:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað mjög brýnt efni sem hv. þingmaður setur á dagskrá um samgöngumál hér á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjavík. Við höfum stundum sagt það hér í þessum sölum að þegar við erum að tala um samgöngumálin sé oft rætt um einstakar framkvæmdir utan höfuðborgarsvæðisins en minna talað um brýn verkefni sem þarf að ráðast í hér. Ég held að það sé reyndar miður af því að auðvitað varða samgöngumál alla landsmenn ekki síst þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Ríkið ber ábyrgð á 40 kílómetra stofnbrautum í Reykjavík. Það þýðir auðvitað að ríkinu ber að halda þeim við og líka leita leiða til þess að samgöngur séu greiðari og öruggari. Það verður að segja eins og er að til þess að ná samkomulagi um hvernig fara eigi í tilteknar framkvæmdir þá skiptir máli að gott samtal sé milli ríkis og sveitarfélaga í hvert skipti. Nú er það þannig milli ríkisins og Reykjavíkurborgar að í gildi er samningur þar sem megináhersla er lögð á uppbyggingu almenningssamgangna eins og ég held að þingheimur þekki og sá samningur er í gildi til 2022.

Ég hef haldið því til haga í þessu samhengi að það sé mjög brýnt að byggðar séu upp traustar almenningssamgöngur. Ég tek undir með hv. þingmanni að menn þurfa að geta komist leiðar sinnar á þann hátt sem hverjum og einum hentar. Almenningssamgöngur skipta miklu máli í því. Það er líka þannig að vegakerfið í borginni skiptir máli. Það liggur fyrir að fara verður í átak þar og ekki hægt að bíða mikið með það. Ég hef átt þessi samtöl við borgarstjóra. Ég hygg að þrátt fyrir þennan samning verðum við að komast að niðurstöðu um það í hvaða brýnu verkefni þarf að fara í borginni.

Á 12 ára áætlun eru gatnamótin Reykjanesbraut – Bústaðavegur. Þar er gríðarlegur umferðarþungi, sérstaklega á háannatímum. Þetta er farið að verða svo slæmt víða á ystu mörkum borgarinnar að fólk á mjög erfitt með að komast um að morgni dags. Þessi framkvæmd mundi hafa gríðarlega jákvæð áhrif í för með sér. Ég bind vonir við að Reykjavíkurborg muni leggjast á árarnar með okkur um að slíkar framkvæmdir geti orðið að veruleika.

Hægt er að nefna fleiri framkvæmdir. Ég er sjálf þeirrar skoðunar að við eigum að fara í allt aðra hugsun þegar kemur til dæmis að stofnbrautum innan gömlu Reykjavíkur. Mér þætti mjög áhugavert að það yrði rætt milli ríkis og Reykjavíkur að Miklubrautin sé hreinlega sett í stokk. Þá væri hægt að byggja ofan á gömlu Miklubrautinni og þétta byggð og gera borgina fallega.

Ég er einnig þeirrar skoðunar, og vil að það komi hér fram, að það er ekki bara úti á landi sem jarðgöng eiga við. Það er sjálfsagt að líta til jarðgangaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu líka. Reykjavíkurborg er að verða þannig núna að öll umferðin safnast saman á ytri mörkum borgarinnar. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að líta á þróun borgarskipulags þegar litið er til umferðarmannvirkja 20 til 30 ár fram í tímann með það að markmiði að reyna að koma umferðinni betur neðan jarðar og vera svolítið stórhuga í því. Það má alveg hugsa sér að þar sé hægt að líta til blandaðrar fjármögnunar að einhverju leyti þegar þetta er skoðað. Þarna held ég að séu mikil tækifæri til framtíðar. Ég á alveg von á því að yfirvöld borgarmála, hver sem þau eru á hverjum tíma, séu sammála um að rétt sé fyrir höfuðborgina að átak sé gert í þessum málum.

Varðandi Sundabrautina, og það þekkir hv. þingmaður mætavel sjálfur frá því hann var borgarfulltrúi hér í Reykjavík, þá er það mál svo sannarlega ekki nýtt af nálinni. Þar er ekki samkomulag um það hvernig fara skuli í milli ríkis og borgar. Það er því miður þannig að ágreiningurinn er töluverður um einstaka þætti. Það á við um hvernig eigi að koma Sundabrautinni fyrir borgarmegin í skipulagi. Nú er verið að byggja íbúðabyggð á þeim svæðum þar sem Sundabrautin á að vera, en ég er á því að hún sé gríðarlega mikilvæg samgöngubót og ég vil halda henni á lofti.

Spurt var um Skerjabrautina. Reyndar hefur ekki farið fram mikil athugun á henni af hálfu ríkisins. Ég er ekki í færum til að tjá mig mjög mikið um það hvernig því skuli háttað. Ég legg áherslu á að við lítum ekki síður á stofnbrautirnar sem eru til staðar í borginni og veltum fyrir okkur hvort hægt sé að hafa þær öðruvísi en þær eru. Hver segir að Miklubrautin þurfi endilega að vera eins og hún er? Hver segir það?