145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

[11:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að taka þessa umræðu hér við hæstv. innanríkisráðherra og ég ætla líka að gleðjast yfir þeim tóni sem ég heyri hjá þeim báðum varðandi almenningssamgöngur. Markmið okkar með samgönguúrbótum á höfuðborgarsvæðinu hlýtur að vera að auka ferðahraða þeirra sem þurfa að komast á milli staða, draga úr mengun og draga úr kostnaði fólks við að komast leiðar sinnar dags daglega. Ef við lítum til tveggja þátta varðandi umferðarmannvirki á höfuðborgarsvæðinu fer helmingurinn af öllu landi í Reykjavík, að frátöldum grænum svæðum, undir umferðarmannvirki. Þetta er gríðarlegt magn af landsvæði sem við höfum nú þegar malbikað til að keyra bíla á eða leggja bílum. Við getum ekki gengið lengra í þeim efnum þótt við getum gert umbætur á því kerfi sem nú þegar er til staðar án þess að skerða verulega lífsgæði þeirra sem búa í borginni. Nú er það svo að fulltrúi innanríkisráðuneytisins er að fara með bæjarstjórum á höfuðborgarsvæðinu sérstaka ferð til Vancouver, Strassborgar og Kaupmannahafnar til þess að fá kynningu hjá þeim aðilum sem lengst hafa gengið og eru hvað fremstir á sviði almenningssamgangna. Ég fagna þessu og ég er ákaflega ánægð með að ríkisvaldið sé að vakna til lífsins og komi með í þessa ferð, sem unnið hefur verið út frá í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er líka lykilþáttur, efling almenningssamgangna, (Forseti hringir.) í því að við getum staðið við skuldbindingar okkar um að draga úr losun. En enn og aftur, frú forseti, takk fyrir gagnlega umræðu. Það er ánægjulegt að heyra að fólk er almennt að átta sig á því að aukinn uppbygging almenningssamgangna mun auka lífsgæði fólks og draga úr mengun.