145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

[12:16]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna, hún er vissulega mjög þörf. Það hefur verið farið vel yfir það, af þeim ræðumönnum sem hafa talað á undan mér, í hve brýnni þörf allt kerfið er, auðvitað ekki bara hér á Reykjavíkursvæðinu en það er nú kannski umræða dagsins í dag. Hv. málshefjandi kom inn á hluti eins og mengun við það að bílar séu stopp á ljósum og svo talar hann, eins og fleiri sjálfstæðismenn, að því er maður hefur heyrt, með sérstakri hlýju til einkabílsins. Verð ég kannski að benda á það að ef fólk fer í minna mæli á einkabíl hvert og eitt þá dregur úr mengun í leiðinni ef það er líka hjartans mál málshefjanda. Það sem mestu máli skiptir er þó að rafbílavæða flotann. Það eigum við að vera að hugsa um miklu meir en við gerum.

Varðandi umferðaröryggið verð ég, út af því að hæstv. ráðherra er hér í salnum að hlusta og við eigum þessar umræður við hana, að fá að vekja athygli á stað þar sem ljóst er að hætta er yfirvofandi, hætta á mjög alvarlegum slysum, en það er tenging Krýsuvíkurvegar við Reykjanesbraut. Það eru, að því er margir telja, hættulegustu gatnamót landsins. Á jaðri þess svæðis eru 4.000 íbúar og það er stórt iðnaðarhverfi þar sem stórir þungavigtarbílar, vörubílar, taka vinstri beygju út á frá Reykjanesbæ. Þó að ég vilji leita annarra lausna en mislægra (Forseti hringir.) gatnamóta í þéttri byggð þarf mislæg gatnamót þarna. Ég vil að við bregðumst strax við þessu því að ég er ansi hrædd um að við sjáum fram á mjög alvarleg slys á þessum stað ef ekkert verður að gert.