145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

[12:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu hafa verið mitt hjartans mál á meðan ég hef verið þingmaður. Ég hef talað mjög fyrir því að farið verði eins fljótt og kostur er í Sundabraut. Nú er Sundabraut komin á 12 ára samgönguáætlun og tel ég að ekki verði lengur beðið með að fara í það þarfa mannvirki, því að á árinu 1994 þegar ákveðin hátíð var á Þingvöllum stífluðust útgönguleiðir borgarinnar, og síðan þá hefur okkur fjölgað mjög á höfuðborgarsvæðinu. Komi upp náttúruvá eða verði eitthvert annað tjón hér sem leiðir til þess að rýma þarf höfuðborgarsvæðið mjög hratt þá er einfaldlega ekkert til staðar sem ræður við það. Meira að segja kom það fram í fyrirspurn minni til innanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili að slíkt væri ekki kortlagt og var farið í þá vinnu í kjölfar fyrirspurnar minnar.

Það er annað sem við þurfum að huga að á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjavík, það er að vinna skipulagsmál með þeim hætti til framtíðar að hafa heildarsýn á hvernig borgin á að þróast, hafa heildarsýn á að Sundabraut muni tengja borgina við Geldinganes, svo eitthvað sé nefnt, og hafa framtíðarsýn um að uppbygging höfuðborgarinnar verði austast í borginni í stað þess að setja íbúðabyggð niður þar sem hugsanlegt upphaf Sundabrautar verður.

Virðulegi forseti. Því miður er það svo að borgin og ríkið hafa ekki sömu framtíðarsýn á þróun samgöngumála eins og er. Það er kannski vegna þess að það er hvor sinn meiri hlutinn hjá ríki og borg, en þessu verður að breyta svo höfuðborgin okkar geti verið höfuðborg meðal höfuðborga og eru skipulagsmálin þar engin undantekning. Það á alls ekki að vera togstreita eða samkeppni milli höfuðborgarinnar og ríkisins eins og nú er.