145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

[12:37]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Sannast að segja er tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga svolítið óárennilegt viðfangsefni fyrir okkur sem ekki höfum starfað að sveitarstjórnarmálum. Hvað felst eiginlega í því? Jú, það er hversu stór hluti allra opinberra tekna, allra tekna ríkisins, hvort sem þær fara til ríkis eða sveitarfélaga, rennur til sveitarfélaganna og hve stór til ríkisins. Ríkið hefur ákveðna tekjustofna og sveitarfélögin hafa ákveðna tekjustofna. Síðan er fjármunum deilt í gegnum jöfnunarsjóð til sveitarfélaganna eftir reglum sem venjulegt fólk setur sig ekki inn í sannast að segja og eru ekki svo gagnsæjar, svo ég noti tískuhugtak.

Ég hef nýlega komist að þeirri niðurstöðu í huga mér að þessi skipting sé eitt af brýnustu úrlausnarefnum stjórnmálanna. Mikilvæg verkefni eru á vegum sveitarfélaganna, t.d. leikskólar, grunnskólar, menningarmál hvers konar, málefni fatlaðra, svo fátt eitt sé nefnt. Til að geta sinnt þessum verkefnum verða sveitarfélögin að hafa fjármagn. Það var sagt í mín eyru um daginn að sveitarfélögin hefðu samið af sér í samningum við ríkið. Ég get ekki skilið hvernig það getur verið. Ríkið á að sjá til þess að sveitarfélögin hafi næga peninga til að sinna þessum verkefnum og getur ekki skýlt sér á bak við trénaðar reglur um hvernig opinberum fjármunum er úthlutað. Þess vegna er ég ánægð að heyra að verið sé að skapa einhverjar reglur fram í tímann um þetta.

Ráðherra ferðamála segir óþarft t.d. að leggja sérstakt gjald á ferðamenn vegna þess að peningarnir af ferðamönnum flæði inn í ríkissjóð. Ég spyr þá: Hvers vegna hefur hún ekki beitt sér fyrir því að sveitarfélögin, sem bera mikinn kostnað af ferðamönnum, fái eitthvað af þessum peningum? (Forseti hringir.) Af hverju er þetta allt í einhverjum gömlum, föstum skorðum?