145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

[12:39]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa tímabæru umræðu. Það er mikilvægt, þegar við hugsum um sveitarfélögin, að muna eftir því að sveitarfélagastigið sér um og veitir um það bil 40% af opinberri þjónustu þegar við horfum á krónutölur. Sveitarfélögin eru ekki aðili úti í bæ heldur þvert á móti lykilhluti af hinu opinbera, ef við getum sagt sem svo, og megnið af þjónustunni sem sveitarfélögin eru ábyrg fyrir er nærþjónusta og bein þjónusta við einstaklinga í samfélaginu. Þetta er því þjónusta sem skiptir mjög miklu máli. Þess vegna vil ég, eftir þá reynslu að hafa verið sveitarstjórnarmaður og nú á Alþingi, ítreka mikilvægi þess að samskipti ríkis og sveitarfélaga séu á eins miklum jafningjagrunni og hægt er að hugsa sér. Það er mjög mikilvægt að ríkið álíti sveitarfélögin ekki vera sjálfstæðan aðila úti í bæ heldur mikilvægan samstarfsaðila í því að halda utan um opinbera þjónustu og þjónustu við landsmenn.

Hér á Alþingi setjum við lög og reglur. Við erum alltaf að setja lög og reglur til þess að tryggja réttindi borgaranna, gerð og gæði þjónustu hingað og þangað. Miðað við þetta hlutfall þá er stór hluti þessarar þjónustu veittur á ábyrgð sveitarfélaganna. Við verðum að horfa til þess líka þegar kemur að tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég tel mjög mikilvægt að það samtal sé ekki í föstum skorðum, þ.e. að við séum sífellt að endurskoða það fyrirkomulag. Ferðamannasprenging síðustu ára hefur breytt miklu, bæði í því hvernig tekjur hins opinbera eru samsettar en líka hvernig þjónusta og ábyrgð á þjónustu (Forseti hringir.) hefur skipst á milli sveitarfélaga. Það er mjög mikilvægt að endurskoða hvort tveggja og ég vil koma inn á það í seinni ræðu minni.