145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

[12:44]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu gífurlega mikilvæga máli sem snýst um það hvernig við skiptum þeim tekjustofnum eða skatti sem fólk borgar til ríkisins milli ríkis og sveitarfélaga. Ég held að allir sjái það um leið og við skoðum umræðuna að sveitarfélögin hafa verið vanfjármögnuð og sér í lagi þar sem við erum að reyna að hafa ýmsa þjónustu í nærumhverfi. Þá er ég sérstaklega að tala um að færa skóla alfarið yfir á sveitarstjórnarstigið og að sjálfsögðu þegar við færðum þjónustu við fatlað fólk yfir til sveitarfélaganna og þar fram eftir götunum. Það þarf að koma til móts við það.

Á sama tíma eru miklu fleiri farnir að nota innviði okkar af því að við erum komin með þvílíkan ferðamannastraum. Ég skil ekki af hverju Ísland þarf alltaf að vera að finna upp hjólið, aftur og aftur. Það er búið að finna lausn á þessu, hún heitir gistináttagjald, sem getur verið allt að 5% af verðinu í allt að tíu daga í sumum löndum. Ímyndum okkar ef slíkt gjald rynni beint til sveitarfélaganna. Við erum að tala um nokkrar krónur, 100–200 kr. á haus á nótt, en það mundi skipta sköpum fyrir sveitarfélögin, fyrir litlu sveitarfélögin úti á landi, en líka og ekki síst fyrir Reykjavíkurborg. Hérna eru fleiri þúsund í viðbót að nota almenningssamgöngurnar, að nota innviðina og við þurfum einhvern veginn að bregðast við því. Það er algjörlega ótækt að við séum endalaust að snúast í kringum okkur sjálf í hugmyndafræðilegri tilvistarkreppu yfir því hvort það megi setja ný gjöld eða ekki. Það er kominn tími til að gera þetta og hætta þessu aðgerðaleysi.