145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

[12:53]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að það eru margir fyrrverandi sveitarstjórnarmenn í salnum, en umræðan er mjög góð og dýpkar eftir því sem á líður. Ég fagna því sérstaklega. Frekar en að endurtaka það sem þingmenn hafa verið að ræða hérna á undan, sérstaklega í sambandi við ferðamannaiðnaðinn, vil ég lýsa því yfir að það er full ástæða til þess að endurskoða gistináttagjaldið og láta hluta af því renna til sveitarfélaganna. Það gæti verið mjög einföld og auðveld leið í útfærslu og ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að skoða þá útfærslu.

Mig langaði aðeins til að ræða áfram samskiptin á milli ríkis og sveitarfélaga vegna þess að þar hafa verið grá svæði í verkefnaskiptingu og tekjuskiptingu sem valdið hafa núningi á milli ríkisins og sveitarfélaga og hafa oft gert það að verkum að þjónusta hefur verið vanfjármögnuð og jafnvel umsamin löngu síðar. Gott dæmi um það eru samningar sem náðust um sjúkrabílaakstur á höfuðborgarsvæðinu sem tók mörg ár að semja um. Síðan tók enn lengri tími að klára samningana við ríkið meðan sveitarfélögin gengu endalaust bónleið til búðar. Sama má segja um þegar samkomulag náðist loksins um skiptingu á tekjum þegar kemur að rekstri tónlistarskólanna, en það tækifæri var notað til að klára uppsóp á alls konar málum sem farið höfðu á milli ríkis og sveitarfélaga. Það bendir til þess að það sé mjög mikilvægt að þessi samskipti séu liðugri og vandamál leyst jafnóðum en ekki safnað saman og lagað á tíu ára fresti, eins og maður hefur stundum á tilfinningunni.

Að lokum vildi ég hvetja hæstv. fjármálaráðherra til þess að beita áhrifum sínum til þess að frumvarpið um bankaskattinn, sem (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra lýsti stuðningi við, nái í gegnum þingið sem allra fyrst til þess að þær tekjur sem samið hafði verið um við sveitarfélögin skili sér á réttan stað.