145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

[13:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir ágætisumræðu hér í dag um mikilvægt mál. Eins og ég vék að finnst mér miklu skipta að við höfum fellt það í formlegri farveg og ég bind miklar vonir við að það muni treysta betur þetta samtal til lengri tíma.

Spurt er um hvaða augum ég líti á það að fækka sveitarfélögunum. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það þurfi að gerast í góðu samstarfi og tel að ávinningur væri af því að fækka sveitarfélögunum þó ekki væri nema bara til að sinna vel þeim verkefnum sem þau þegar hafa og að mörg sveitarfélög séu of veikar stjórnsýslueiningar til að sinna þeim verkefnum, að ég tali nú ekki um ef við ætlum að halda áfram að flytja verkefni og málaflokka yfir á sveitarstjórnarstigið. En því fylgja bæði kostir og gallar. Ég tel að ekki verði horft fram hjá því að það hefur verið tilhneiging til þess þegar verkefni hafa verið flutt yfir á sveitarstjórnarstigið og þar með þjónustan nær íbúunum að útgjöld vegna viðkomandi málaflokka hafa risið. Það verður að taka það með í reikninginn þegar við þróum þá umræðu lengra.

Varðandi virðisaukaskattinn hef ég ekki verið með það til skoðunar að undanþiggja sveitarfélögin greiðslu á virðisaukaskattinum, en þau eru svo sem ekki inni í kerfinu. Það þýðir að þau sitja þá upp með innskatt þegar þau sækja sér slíka þjónustu.

Varðandi ferðamenn og gistináttagjaldið höfum við boðað þreföldun á gjaldinu í langtímaáætlun okkar. Samkvæmt því ætti að koma frumvarp fyrir áramót til þess að þrefalda gistináttagjaldið. Hvort við skiptum því með sveitarfélögunum er ég alveg tilbúinn til að ræða. Ég hef bara kallað eftir því að það væri skýrara af hálfu sveitarfélaganna hvaða útgjaldaliðir það eru sem eru þeim þungbærastir vegna aukinnar komu ferðamanna. Það er alveg ljóst að ef við færum þá leið að margfalda gistináttagjaldið og skipta því með sveitarfélögunum mundi bróðurparturinn af þeim nýja tekjustofni verða eftir á höfuðborgarsvæðinu, (Forseti hringir.) sérstaklega hjá Reykjavík, en við værum lítið að gera fyrir þau sveitarfélög sem við nefndum sérstaklega í samtali okkar fyrr í þessari umræðu sem eru fámennu landstóru sveitarfélögin sem eru ekki með hótelrekstur eða neitt slíkt. Þau mundu ekkert fá út úr því.