145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Frumvarpið er að meginstefnu byggt á samkomulagi milli annars vegar heildarsamtaka opinberra starfsmanna og hins vegar fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Samkomulagið kveður á um nýtt samræmt lífeyriskerfi þar sem allt launafólk nýtur sambærilegra lífeyrisréttinda hvort sem það starfar á opinberum eða almennum vinnumarkaði. Helstu atriði samkomulagsins eru þessi:

Launakjör á opinberum og almennum vinnumarkaði verða samræmd og jöfnuð samkvæmt sérstakri bókun um það efni.

Launafólki verður gert betur kleift að færa sig milli almenns og opinbers vinnumarkaðar hvenær sem er starfsævinnar án þess að það hafi teljandi áhrif á ávinnslu lífeyrisréttinda

Sjóðfélögum í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna verða tryggð sambærileg réttindi og þeir hafa nú með 120 milljarða kr. framlagi hins opinbera til að mæta ófjármögnuðum framtíðarskuldbindingum vegna þeirra.

Lífeyriskerfi opinberra starfsmanna verður fullfjármagnað og kerfið sjálfbært.

Tilurð þessa samkomulags má rekja til viðræðna aðila vinnumarkaðarins um nauðsyn þess að koma á samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Ein af forsendum þess að ná fram slíkri samræmingu er að færa lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna í svipað horf og nú gildir á hinum almenna vinnumarkaði. Hafa viðræður um breytta skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna farið fram á vettvangi starfshóps um LSR sem skipaður var í mars 2011 og í eiga sæti fulltrúar annars vegar heildarsamtaka opinberra starfsmanna og hins vegar fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðherra.

Í frumvarpinu er lagt til að lagaákvæði um A-deild verði að meginstefnu til felld brott í lok árs 2016 og að deildin verði frá og með 1. janúar 2017 starfrækt á grundvelli laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og samþykkta sem um hana gilda. Þar með er horfið frá því að kveða á um föst réttindi sjóðfélaga á grundvelli breytilegs iðgjalds í lögum líkt og nú er gert.

Það er og gert ráð fyrir að stjórn sjóðsins leggi til breytingar á samþykktum sjóðsins þar sem nýtt réttindakerfi verður sett upp, miðað við fast iðgjald, og fjallað verður um aðra þætti sem þýðingu hafa, til að mynda um skipulag sjóðsins að öðru leyti og fjárfestingarstefnu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði framlag, svonefndan lífeyrisauka, þ.e. þann mismun sem er á annars vegar réttindum sjóðfélaga samkvæmt jafnri réttindaávinnslu og 65 ára lífeyristökualdri og hins vegar réttindum sjóðfélaga samkvæmt aldurstengdri réttindaávinnslu og 67 ára lífeyristökualdri, og leggi fjármagn í sérstakan varúðarsjóð.

Samkvæmt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga er það sameiginlegt mat að í ljósi fjárhagsstöðu ríkissjóðs annars vegar og sveitarfélaga hins vegar sé það í þágu settra markmiða um opinber fjármál að ríkissjóður taki yfir um 20,1 milljarðs kr. skuldbindingu sem sveitarfélögin hefðu ella borið vegna fjárframlaga til A-deildar LSR. Jafnframt er það sameiginlegur skilningur að í viðræðum ríkis og sveitarfélaga næstu missiri um fjárhagsleg samskipti, m.a. vegna áhrifa lagabreytinga, verði tekið tillit til þess stuðnings ríkisins við sveitarfélög sem felst í yfirtöku skuldbindinganna. Eftir sem áður munu sveitarfélögin bera kostnað vegna A-deildar Brúar og eykur það hreinar skuldir sveitarfélaganna til muna.

Lengi hefur verið stefnt að því að mynda einn vinnumarkað á Íslandi með samræmdum kjörum, en einn liðurinn í því er að samræma lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði, bæði til þess að auðvelda samanburð á kjörum hópanna og til þess að tryggt sé að launamenn og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi geti flutt sig til á vinnumarkaði og á milli lífeyrissjóða hvenær sem er á starfsævinni án þess að það hafi teljandi áhrif á réttindaávinnslu þeirra.

Almenni markaðurinn hefur þegar tekið upp aldurstengda ávinnslu en Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins gerðu með sér samkomulag í desember 2004 um að taka upp aldurstengda réttindaávinnslu í sjóðum á samningssviði þeirra. Henni var komið á í sjóðum með tiltekinni aðlögun. Þannig héldu þeir sjóðfélagar sem voru greiðandi við breytinguna að jafnaði rétti til jafnrar réttindamyndunar að tilteknu hámarki til loka starfsævinnar og iðgjald umfram það hámark reiknast til réttinda samkvæmt almennum reglum um aldurstengda ávinnslu.

Í þessu sambandi þykir rétt að líta til þess að þær forsendur sem gengið var út frá við setningu laga nr. 1/1997 hafa ekki gengið eftir þegar litið er til tryggingafræðilegra forsendna. Þannig var tryggingafræðileg staða A-deildar í árslok 2015 neikvæð um rúma 57 milljarða kr., þ.e. um 8,8% af heildarskuldbindingum sjóðsins. Sú staða kallar enn fremur á breytingar. Til að sjóðurinn komist í jafnvægi þyrfti iðgjald launagreiðenda að hækka úr 11,5% í 15,1% þannig að iðgjald í heild yrði 19,1%. Í núverandi kerfi safnast réttindi eftir jafnri réttindaávinnslu. Slík ávinnsla leiðir til þess að króna sem borguð er inn fyrir starfsmann sem er t.d. 66 ára gefur jafn ríkuleg réttindi og fyrir starfsmann sem er t.d. 20 ára þrátt fyrir að króna þess yngri eigi eftir að safna ávöxtun í 47 ár en þess eldri í einungis eitt ár. Þetta leiðir til þess að ungar kynslóðir niðurgreiða réttindi eldri kynslóða.

Eins og staðan er nú er útilokað að A-deild geti verið sjálfbær meðan deildin er með jafna réttindaávinnslu sökum aldurssamsetningar sjóðfélaganna. Aldurstengd réttindaávinnsla leiðréttir þetta misvægi þar sem kerfið gerir ráð fyrir því að iðgjöld skapi réttindi í samræmi við þann tíma sem þau ávaxtast í sjóðnum. Þá leiðir aldurstenging til þess að afkoma lífeyrissjóðsins er óháð aldurssamsetningu sjóðfélaga. Flestir lífeyrissjóðir á almennum markaði hafa undanfarin ár leiðrétt þetta misræmi og það er áríðandi að sama leið verði farin til þess að koma jafnvægi á A-deild.

Í frumvarpinu er því lagt til að lagaákvæði um A-deild verði í meginatriðum felld brott og samhliða verði samþykktum fyrir sjóðinn breytt og þar kveðið á um að hann byggi á aldurstengdri réttindaávinnslu og 67 ára lífeyristökualdri. Með þessu verður aldurstengd réttindaávinnsla fest í sessi í íslenska lífeyrissjóðakerfinu.

Frumvarpið felur í sér grundvallarbreytingar á skipan lífeyrismála þorra opinberra starfsmanna eins og ég hef reifað. Réttindaávinnsla sjóðfélaga í A-deildum LSR og Brúar verður aldursháð en ekki jöfn yfir starfsævina en samhliða þeirri breytingu er halli á framtíðarskuldbindingum LSR og Brúar að fullu fjármagnaður af opinberum launagreiðendum, auk þess sem lífeyristökualdur verður hækkaður úr 65 árum í 67 ár.

Þessar breytingar eru til samræmis við það sem tíðkast á almennum markaði. Til að tryggja réttindi núverandi sjóðfélaga verður greidd eingreiðsla launagreiðenda inn í deildina sem lögin ná til og mun það tryggja að breytingin verði ekki gerð á kostnað þeirra sjóðfélaga sem hafa áunnið sér réttindi. Breytingin tryggir að sjóðurinn verður sjálfbær og því er óvissu um framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs gagnvart sjóðnum jafnframt eytt með þessari aðgerð.

Frumvarpið er mikilvægur liður í jöfnun lífeyrisréttinda á íslenskum vinnumarkaði þar sem gert er ráð fyrir að viðmið lífeyris verði 76% fyrir allan vinnumarkaðinn. Fyrr á árinu tók almenni markaðurinn skref í þessa átt þegar Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins undirrituðu samning þar sem lífeyrismótframlag vinnuveitenda er aukið í áföngum til jafns við mótframlag á opinberum vinnumarkaði. Sú aðlögun verður að fullu komin til framkvæmda um mitt ár 2018.

Á heildina litið mun breytingin hafa jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn þar sem hún eykur val og sveigjanleika vinnuafls. Vinnuafl mun eiga auðveldara með að flytja sig á milli opinbera og almenna markaðarins með breytilegri eftirspurn markaðanna. Einnig eru langtímaáhrif af jöfnun lífeyrisréttinda á milli almenna og opinbera markaðarins til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á þjóðarbúið í heild þar sem óvissu verður eytt um framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs, rekstur opinberu lífeyrissjóðanna verður gerður sjálfbær og sveigjanleiki á vinnumarkaði aukinn.

Í augsýn er að í kjölfar þessara ráðstafana og skyldra áforma verði Ísland, eitt örfárra ríkja í heiminum, með fullfjármagnað og samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Slík staða felur í sér afar þýðingarmikinn styrkleika til frambúðar, bæði fyrir fjármál hins opinbera og efnahagskerfið í heild.

Þess verður að geta í þessu samhengi að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er enn með þó nokkuð mikinn uppsafnaðan halla á sínum skuldbindingum. Eignastaða sjóðsins er ekki líkleg til að standa undir þeim skuldbindingum sem gefnar hafa verið og vantar mikið upp á. Það er á þeim grunni og þeim forsendum sem í fjárlögum undanfarin ár hefur verið vakin athygli á þessari skekkju og við hyggjumst hefja strax á næsta ári innborgun inn á þessa skuldbindingu til að lágmarka þær greiðslur sem ella þurfa að koma til í framtíðinni. Í kringum árið 2026 tæmist eignastaða Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í B-deild á móti skuldbindingum og þá sitja skuldbindingarnar einar eftir og ríkissjóður mun þá frá þeim tíma, verði ekkert gert í millitíðinni, þurfa að greiða út á bilinu 25–30 milljarða ár hvert til að mæta þeim þegar útgefnu skuldbindingum.

Með fyrirframgreiðslu inn á þessa skuldbindingu sem boðuð hefur verið í langtímaáætlun í ríkisfjármálum er dregið úr því höggi eða því umfangi sem fellur á ríkið í framtíðinni og greiðslunum dreift yfir lengri tíma. Það tel ég að sé afar skynsamleg ráðstöfun sem við eigum að sammælast um að styðja, ella erum við að ýta vandanum enn frekar á undan okkur.

Ég kom inn á það að Ísland er eitt örfárra ríkja í heiminum sem með þeim breytingum sem við erum hér að boða mun hafa virkt og fullfjármagnað lífeyrissjóðakerfi opinberra starfsmanna. Þetta er ekkert smávegis mál, þetta er risastórt hagsmunamál framtíðarkynslóða. Í samhengi hlutanna er í raun og veru merkilegt hve lítið er horft til þátta eins og þessa þegar metin er staða einstakra þjóðríkja. Ég nefni sem dæmi að matsfyrirtæki horfa algerlega fram hjá uppsöfnuðum skuldbindingum ríkissjóða þegar lagt er mat á getu þeirra til að standa við skuldbindingar sínar í framtíðinni. Að jafnaði horfa matsfyrirtækin einungis til skuldbindinga sem falla til á næstu fimm árum og þar með eru uppsafnaðar lífeyrisskuldbindingar algerlega fyrir utan radar matsfyrirtækjanna. Þetta er merkilegt, ekki síst fyrir þær sakir að víða í Evrópu er byggt á gegnumstreymiskerfi, þ.e. frá morgni til kvölds er verið að dæla út loforðum um að fólk eigi inni hjá viðkomandi ríkisstjórnum lífeyrisréttindi einhvern tímann í framtíðinni sem skattgreiðendur þess tíma munu þurfa að sjá um að standa undir. Á sama tíma er lýðfræðileg þróun í þessum sömu löndum sú að fólk eignast sífellt færri börn, landamærin eru orðin galopin, Evrópusambandið er orðið einn stór vinnumarkaður og engin trygging fyrir því að skattgreiðendurnir verði til staðar þegar reynir á þessar miklu skuldbindingar í framtíðinni.

Þegar síðan við bætist að svæði eins og Evrópusambandið er í aukinni samkeppni við önnur heimssvæði eins og Asíu sem er í örum vexti, Suðaustur-Asíu, ég tala nú ekki um Suður-Ameríku eða eftir atvikum Afríku og Indland sem spáð er að muni vaxa mun örar en þessi svæði, dregst upp nokkuð dökk mynd. Við skulum hafa það ávallt í huga þegar við ræðum um stöðu ríkissjóðs, lífskjör okkar Íslendinga og þann grunn sem þau eru byggð á og horfur á Íslandi til lengri tíma, hversu lánsöm við erum að hafa fyrir löngu síðan tekið ákvörðun um að leggja til hliðar til að eiga fyrir þeim skuldbindingum sem eru hér undir.

Þetta er líka mikilvægt í öðru samhengi. Ég nefni t.d. að það horfir til þess að lífeyrissjóðakerfið muni smám saman létta af almannatryggingum þeim byrðum sem á því kerfi hvíla vegna þess að í dag höfum við því miður nokkrar kynslóðir sem hafa ekki yfir starfsævina náð að byggja upp fullnægjandi lífeyrisréttindi. Úr þessu mun draga í framtíðinni. Það mun þess vegna létta á almannatryggingakerfinu með þeirri sjóðsöfnun sem hefur átt sér stað. Það er vel vegna þess að það mun tryggja að við verðum þeim mun betur í stakk búin til að styðja við þá sem á þurfa að halda þegar kemur að almannatryggingum og því stuðningskerfi sem við ætlum að hafa í gildi á Íslandi til að styðja við þá sem höllum fæti standa, þá sem hafa orðið fyrir áföllum, þá sem þurfa á stuðningi frá samborgurum sínum að halda hverju sinni. Þéttriðið velferðarnet verður þeim mun betra sem önnur kerfi spila betur með því eins og lífeyriskerfið.

Ég ætla að lokum að setja þetta mál aðeins í stærra samhengi, í samhengi við það verkefni okkar á Íslandi að vinna að auknum stöðugleika, lægri verðbólgu og lægra vaxtastigi til lengri tíma.

Vaxtagjöld heimilanna í landinu eru um 100 milljarðar á ári og meðalvaxtastigið liggur í kringum 5%. Það þýðir að hvert prósent sem okkur tekst að lækka í vaxtabyrði heimilanna mundi létta af þeim u.þ.b. 20 milljörðum í vexti á ári. Tvö prósentustig mundu létta af heimilunum 40 milljörðum af vaxtagreiðslum á ári.

Þetta mál hér, jöfnun lífeyrisréttinda, er einn áfanginn, ein varðan á leiðinni í átt að nýju vinnumarkaðsmódeli á Íslandi sem er bráðnauðsynlegt að komist á og áfram verði unnið að til þess að við færum okkur nær vinnumarkaðslíkani Norðurlandanna. Þar hefur mönnum auðnast að búa þannig um kjarasamningagerð, bæði á almenna og opinbera markaðnum, að mun sjaldnar hefur reynt á það að teknar séu út í kjaraviðræðum hækkanir sem eru umfram framleiðniaukningu í hagkerfinu og þar af leiðandi hefur það sjaldnar gerst að vegna samninga á vinnumarkaði hafi orðið til verðbólguþrýstingur sem hefur leitt til hækkandi verðlags og síðan hærra vaxtastigs í kjölfarið. Vinnumarkaðurinn þar hefur sem sagt betur stutt við opinberar aðgerðir til að viðhalda stöðugleika.

Hér væri freistandi fyrir mig að fara að tala um hvað hið opinbera getur gert en ég ætla bara að vísa í fyrri ræður mínar um lög um opinber fjármál, að við höfum gert mjög margt, sveitarfélögin og ríkið, til að vinna að sama markmiði. En þetta er mál sem snertir vinnumarkaðinn sérstaklega og er ekki bara forsenda þess að hægt sé að halda áfram með SALEK-samkomulagið heldur er líka forsenda þess að yfir höfuð sé hægt að tala áfram um möguleika til þess að jafna launakjör á milli almenna og opinbera markaðarins og að hægt sé að tala af einhverri alvöru um það að veita opinberum starfsmönnum launaskriðstryggingu í anda þess sem átt hefur við á Norðurlöndunum.

Launaskriðstrygging er krafa opinbera markaðarins og skiljanlega vegna þess að reynslan hefur sýnt að launaskrið á sér einkum stað á almenna markaðnum á meðan kjarasamningar eru grundvöllur launaþróunar hjá opinberum starfsmönnum. Þetta hefur leitt til spennu í kjaraviðræðum, þetta hefur jafnvel leitt til verkfalla, þetta hefur leitt til þess að það brotnar upp úr ítrekað og við höfum lent í höfrungahlaupi í kjarasamningagerð, bæði milli einstakra stétta, hvort sem er á almenna eða opinbera markaðnum, og eins líka á milli þessara tveggja markaða. Við hljótum öll að vilja vinna að því að koma í veg fyrir slíkt í framtíðinni og halda áfram vinnunni í áttina að gerð nýs vinnumarkaðslíkans. Jöfnun lífeyrisréttinda er einn hornsteinninn að slíku nýju vinnumarkaðslíkani.

Mér finnst ástæða til að nota tækifærið hér og þakka öllum þeim sem hafa komið að þessari vinnu í gegnum tíðina, þetta er vinna sem hefur staðið yfir í mörg ár, bæði í stjórnkerfinu og í stéttarfélögunum, í heildarsamtökum þeirra, og á vettvangi sveitarstjórnanna í landinu. Það er svo langt í frá sjálfgefið að margra ára vinna af þessum toga endi með gerð samkomulags og breiðri samstöðu eins og á við hér. Við þekkjum það úr umræðunni að það eru einstök dæmi um að félög telji sig ekki skuldbundin af samkomulaginu en ríkið getur að sjálfsögðu ekki átt samtal og gert samninga við hvert og eitt félag í landinu heldur hlýtur ávallt að beina orðum sínum að heildarsamtökum á vinnumarkaði. Það er sérstaklega ánægjulegt að svo virðist sem yfirgnæfandi meiri hluti félaganna hafi veitt forustumönnum sínum stuðning til að ganga frá þessu máli.

Ég ætla líka að segja að það var grundvallarnálgun við alla vinnu í þessu máli að við ætluðum að verja þau réttindi sem þegar voru áunnin í kerfinu hjá þeim sem teljast til opinberra starfsmanna. Það þýðir að við þurftum að búa þannig um hnútana í samningagerðinni að enginn bæri skarðan hlut frá borði, en á sama tíma stóð aldrei til að fara að bæta sérstaklega eða enn frekar stöðu einstakra hópa opinberra starfsmanna. Þessu markmiði er náð með viðaukaframlaginu, lífeyrisviðaukanum, og ég held að það sé óhætt að segja að tímasetningin hentar ágætlega vegna þess að ríkissjóður stendur sterkt um þessar mundir og er aflögufær til að fullfjármagna A-deildina. Það er ekkert sjálfgefið að ríkissjóður verði það á komandi árum á sama tíma og menn hyggja á byggingu nýs Landspítala, vilja styrkja almannatryggingakerfið, hyggjast taka sérstaklega á greiðsluþátttöku sjúklinga, horfa fram á að gera þurfi enn frekari samgöngubætur á Íslandi, vilja auka framlög til menntakerfisins til að við nálgumst nágrannaþjóðir okkar og samanburðarþjóðir í framlögum á nemanda, hvort sem er á háskólastigi eða annars staðar. Það er ekki sjálfgefið að ríkið geti sinnt öllum þeim krefjandi og útgjaldafreku verkefnum og lokað ófjármögnuðum skuldbindingum í lífeyrissjóðakerfinu. En þær aðstæður eru uppi núna, þess vegna er tækifærið til staðar til að binda um þetta mál. Ég tel að það sé ástæða til að þakka öllum þeim sem hafa komið að því í gegnum tíðina.

Þegar við göngum lengra eftir þessari braut munum við sjá skref í átt til nýs vinnumarkaðslíkans sem ég hef hér rakið þar sem grundvallarhugsunin verður vonandi sú að þegar kemur að gerð kjarasamninga í framtíðinni munum við hafa þróað með okkur samkomulag um það hvernig við festum fingur á því svigrúmi sem er til staðar hverju sinni til launahækkana í landinu. Við þurfum að finna einhvers konar vettvang til að taka það samtal, tæki til að mæla svigrúmið sem er til staðar hverju sinni þannig að það verði ekki ágreiningsefni á sama tíma og við þurfum að ræða um það hvernig eigi að skipta svigrúminu. Við höfum í gegnum tíðina rætt hvort það væri svigrúm og hversu mikið svigrúmið væri til launahækkana yfir höfuð og svo höfum við þurft að takast á um það hvernig ætti að skipta svigrúminu, samanber síðustu kjaralotu þar sem í senn var rætt um það að stórhækka lægstu laun, meta menntun til launa og að í landinu væru sérfræðingar sem mundu flytja til útlanda ef kjör þeirra mundu ekki lagast mjög verulega á sama tíma. Í framtíðinni komumst við vonandi út úr þeirri stöðu með nýju vinnumarkaðslíkani sem hefur þá breytingu í för með sér að við höfum þróað módel til að mæla og komast að samkomulagi um hvert svigrúmið er og kjaralotan snýst þá um að dreifa því, skipta því svigrúmi í kjarasamningum.

Einn grundvallarþáttur þess vinnumarkaðslíkans eins og ég sé það fyrir mér verður sá að almenni markaðurinn og ekki síst útflutningsgreinarnar verði leiðandi í kjarasamningsgerðinni, opinberi markaðurinn fylgir þá í kjölfarið og njóti launaskriðstryggingar með sjálfvirkum launauppfærslum á gildistíma kjarasamningsins til samræmis við þær launahækkanir sem eiga sér stað hjá almenna markaðnum. Þetta væri módel sem væri mjög í anda þess sem hefur reynst vel annars staðar.

Mikilvægur þáttur í því að komast á þennan stað væri sá að eyða ágreiningi um launaójöfnuð milli markaðanna. Samhliða því samkomulagi sem liggur hér til grundvallar um jöfnun lífeyrisréttinda er bókun um að við setjum fjármuni í að rannsaka launamun milli almenna og opinbera markaðarins. Við ætlum að þróa aðferðafræði til að mæla slíkan launamun og við ætlum síðan að taka á honum sérstaklega. Við ætlum að láta á það reyna að það verði gert innan ramma SALEK-samkomulagsins en takist það ekki ætlum við að taka það inn í kjarasamningslotuna. Ég ætla að halda því til haga í því sambandi að það er svo sem ekki og hefur aldrei verið sameiginlegur skilningur á milli opinbera og almenna markaðarins um umfang slíks launamunar eða hvort hann sé merkjanlegur yfir höfuð ef því er að skipta. Það er í sjálfu sér áskorun að finna út úr því en við göngum til þess verks af fullum heilindum og hlustum eftir kröfunni sem t.d. hefur birst nýlega frá Landssambandi lögreglumanna og öðrum stéttarfélögum um mikilvægi þess að unnið verði í þessu. Við göngum til þess verks af fullum heilindum á grundvelli þeirrar bókunar sem hefur verið gerð um það efni.

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að hér á þinginu geti myndast góð samstaða um að ljúka þessu máli. Það er afskaplega mikilvægt í mínum huga. Við stöndum frammi fyrir því að án samkomulags af þessum toga þurfum við annaðhvort að hækka iðgjald hins opinbera vegna skekkjunnar í réttindum á móti eignum eða slá því enn og aftur á frest. Þar fyrir utan eru væntingar bundnar við það af hálfu allra okkar samningsaðila sem eru hvorki meira né minna en öll heildarsamtökin á opinbera markaðnum að málið fái farsælan endi á þingi.

Allir helstu hagsmunaaðilarnir sem eiga eitthvað undir þeim breytingum sem verið er að kynna í þessu frumvarpi eru samningsaðilar á sama tíma, með þeim fyrirvara sem ég hef nefnt áður að við höfum ekki verið að semja við hvert og eitt aðildarfélag heildarsamtakanna. Af þeim ástæðum tel ég að málið sé það vel þroskað hjá hagsmunaaðilum að menn ættu að geta komið mjög vel undirbúnir inn í umræðu í nefndarstörfum þingsins og þingið ætti að hafa allar upplýsingar fyrir framan sig á skömmum tíma. Verði frumvarpið að lögum taka breytingarnar gildi 1. janúar næstkomandi.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og til fjárlaganefndar (Gripið fram í.) að þessari umræðu lokinni.