145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Líkt og fram kom í framsögu hæstv. ráðherra er hér um gríðarlega viðamikið mál að ræða. Það skiptir miklu, þar sem við erum að fjalla um lífeyri landsmanna, að við förum vandlega yfir það og vöndum til verka.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í samspil þessa kerfis og almenna kerfisins. Í þessu frumvarpi er lagt til að lífeyristökualdur hækki úr 65 árum í 67 ár. Fyrir þinginu liggur hins vegar einnig frumvarp frá hæstv. velferðarráðherra þar sem lögð er til breyting í almannatryggingakerfinu, þ.e. að lífeyrisaldur hækki í áföngum úr 67 ára aldri upp í 70 ár. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hugað hafi verið að samspili þessara tveggja kerfa við vinnslu þessa máls.