145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:59]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort skynsamlegt sé að fjármagna allt að helminginn af í útlögðum kostnaði sem ríkissjóður þarf að leggja út, verði þessar breytingar að lögum með LÍN-skuldabréfum. LÍN-skuldabréfin eru mjög sérstök skuldabréf að því leytinu til að þau eru fjárfesting í menntun. Hér mun eiga sér stað algjör grundvallarbreyting ef við ætlum allt í einu að fara að framselja LÍN-skuldabréf til að fjármagna Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Það er grundvallarbreyting á því hvernig lánasjóðurinn var upphaflega hugsaður. Ekki hefur verið hafður sá háttur á hingað til að framselja skuldabréf LÍN, þannig að það vekur mér furðu, svo ekki sé meira sagt, af því að það hefur ekki verið gert áður. Ég veit ekki einu sinni hvort það er lagaheimild í núverandi lögum til að framselja skuldabréf. Ég velti fyrir mér hvort (Forseti hringir.) þetta sé eðlilegt með hliðsjón af því hvers lags skuldir þetta eru.