145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við fjöllum um mjög umfangsmikið og stórt hagsmunamál allra landsmanna, ekki síst opinberra starfsmanna, sem varðar lífeyriskjör okkar allra og það kerfi sem við byggjum upp í kringum það. Ég ætla eins og aðrir að fagna því að þessi vinna sé komin á þetta stig. Hún er búin að standa árum saman. Þetta er ekki flokkspólitískt viðfangsefni heldur eitthvað sem við þvert á flokka látum okkur auðvitað varða. Þetta er vinna sem hófst í tíð síðustu ríkisstjórnar og hafa reyndar verið löng hlé í þeirri vinnu en grundvöllurinn var stöðugleikasáttmálinn á sínum tíma.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að erindisbréfið hafi verið að fara yfir stöðu A- og B-deildar sjóðsins og koma með tillögur að framtíðarlausnum á vanda þeirra. En töluvert vantaði upp á að sjóðurinn ætti fyrir framtíðarskuldbindingum.

Í skemmstu máli, hæstv. forseti, er ekki verið að taka á vanda B-deildarinnar eða með nokkru móti að ganga inn í hana. Nú má vel vera að það sé ómögulegt, ég skal ekki segja, en það er ekki einu sinni verið að leggja til í fjárlögum það sem þarf til að mæta skuldbindingunum sem nema hundruðum milljarða sem eru ófjármagnaðar í B-deildinni. Þannig að þetta leysir nú ekki nema hluta vandans og af einhverjum ástæðum er B-deildin tekin út fyrir sviga og virðist ekki eiga að sæta breytingum á meðan A-deildin á að gera það, enda er hún annars eðlis.

Ég tel hér um mikið hagsmunamál að ræða. Ég veit líka að unnið hefur verið mikið í þessu og að hagsmunaaðilar eru aðilar að þessu og hafa unnið þessa vinnu.

Það breytir því ekki að Alþingi setur lögin og mikilvægt að við skiljum hvað það er sem við erum að gera, hvaða ákvarðanir við erum að taka til framtíðar sem varða lífskjör fólks á eftirlaunaaldri.

Ég ætla að játa að ég hef ekki enn náð að átta mig á því, en mér virðist sem við sem erum að greiða núna í A-deildina á þessu ári komum inn í þetta lífeyrisaukakerfi. En þeir sem voru þarna inni áður geri það ekki og þeir sem koma inn á næsta eða þarnæsta ári ekki heldur. Þetta er t.d. bara svona einfalt atriði sem ég hef ekki enn náð að átta mig á.

Það eru miklu stærri álitamál sem mér finnst að Alþingi þurfi að fjalla um. Það er hárrétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að vinnan sem núna liggur fyrir er unnin í samráði stéttarfélaganna sem semja gjarnan um þessa hluti í kjarasamningum og þá leið fer það inn í lögin.

Það breytir ekki því að löggjafarvaldið getur ekki framselt þetta vald til aðila úti í bæ. Við getum fengið þá í lið með okkur og notið góðs af þeirra vinnu, en við verðum líka að skilja svo flókið mál áður en við getum gert það að lögum frá Alþingi.

Þá vil ég koma inn á það sem kom fram í andsvari hjá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur áðan að við erum líka hér í þinginu að fjalla um breytingar á lögum um almannatryggingar. Það er mikilvægt kerfi. Þar hafa verið uppi hugmyndir um að við getum bara á nokkrum dögum afgreitt það. Í því frumvarpi er eitt atriði sem vekur æ áleitnari spurningar, það er um eftirlaunaaldurinn 70 ár, reyndar á 24 árum, en í þessu frumvarpi á að færa eftirlaunaaldur úr 65 árum upp í 67 ár. Í frumvarpi um breytingar á lögum um almannatryggingar segir að ákveðin ákvæði taki ekki gildi fyrr en að ári liðnu af því að það eigi eftir að breyta lögum um lífeyrissjóði til að þau geti orðið að veruleika. Ekki er verið að taka á því í þessu verkefni.

Ég held að mjög óskynsamlegt sé að gera grundvallarbreytingar á báðum þessum kerfum í algjörlega einangraðri vinnu hvor frá annarri. Ég held að það sé akkúrat lag núna til að taka alla þá vinnu sem unnin hefur verið og komin er ákveðin niðurstaða í og vinna þessi mál samhliða hér í þinginu. Við erum að tala um mikilvægar kerfisbreytingar í tveimur mikilvægum kerfum sem spila saman og sameiginlega mynda réttindi og kerfi sem fólk grundvallar framfærslu sína á allt að 30–40 árum. Nú er ég kannski dálítið að ýkja, en við getum sagt að meðalaldur er að hækka þannig að í tæp 20 ár getum við sagt að þetta eigi að sjá okkur fyrir lífsviðurværi. Við afgreiðum það ekki bara á nokkrum dögum. Ég skil ekki alveg þá hugmynd. Þetta er ekki flokkspólitískt þras. Þetta er bara vilji þingmanna til að vanda sig í vinnunni og setja góð lög sem eru til hagsbóta fyrir þá sem undir lögin falla. Hér er sannarlega verið að stíga í þá átt að jafna lífeyrisréttindi fyrir alla nema þá sem eru í B-deildinni, svo við höldum því til haga, og svo er komið inn á það í samkomulaginu og þess sé getið í greinargerð að það þurfi jafnframt að jafna launakjör á almenna markaðnum og opinbera markaðnum.

Ég stend hér sem kvenkyns þingmaður og mér er vel kunnugt um kyndbundinn launamun á Íslandi. Það hefur verið nánast ógjörningur að vinna bug á þeim launamun. Þegar ég les eitthvert orðalag um að leitast skuli við að jafna þessi kjör þá hrís mér hugur við því, ekki að ég sé ekki sammála því markmiði, en hvernig ætlum við að ná því fram? Jú, gera þarf rannsóknir á því hvernig kjör eru á almenna markaðnum og opinbera markaðnum. Við höfum rannsakað kjör áratugum saman til að reyna að finna út hvernig við vinnum gegn kynbundnum launamun, en ég hef bara miklar áhyggjur af þeirri vinnu. Ég efa ekki að fögur fyrirheit eru hér að baki, en ég vil fá grundvallarumræðu um þetta. Við erum að tala um stórar stéttir háskólamenntaðra kvenna, svo sem eins og kennara og hjúkrunarfræðinga sem og allra þeirra stétta sem eru með sérmenntun, eins og t.d. sjúkraliðar, og hafa látið sér lynda lægri laun í skiptum fyrir atvinnuöryggi og trygga afkomu á efri árum.

Það eru því miklir hagsmunir í húfi. Rétt eins og hv. þm. Björt Ólafsdóttir minntist á verðum við að skoða þetta mál með kynjavinkli og við verðum líka að skoða það með kynslóðavinkli. Við þurfum að gera okkur grein fyrir hvaða áhrif þetta hefur á kjör þeirra sem á eftir koma.

Síðan talaði hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir um 3,5% ávöxtunarviðmiðið hjá lífeyrissjóðunum. Við göngum hér út frá því að það verði óbreytt. Það vita allir að það er þetta viðmið sem myndar vaxtagólf á Íslandi, sem m.a. gerir það mjög flókið að afnema verðtryggingu af skuldbindingum, og þetta er ríkisstjórnin sem ætlaði að komast út úr verðtryggingunni, en þarna er ákveðið grundvallaratriði sem þarf að ræða sem og stærð kerfisins, eins og komið hefur verið inn á af ýmsum þingmönnum.

Við erum líka að tala um að við erum annars vegar með opinbert kerfi og hins vegar almennt kerfi. Almenna kerfið er óöruggara kerfi en hið opinbera, en það hefur þó verið í raun með ríkisábyrgð í gegnum bréf Íbúðalánasjóðs sem lífeyrissjóðirnir hafa fjárfest í og eru með ríkisábyrgð.

Lífeyrissjóðirnir hafa grundvallarstöðu í íslensku efnahagslífi. Þeir skipta sköpum fyrir framfærslu fólks á efri árum og við þurfum að horfa til margra þátta þegar við gerum grundvallarbreytingu á þessum kerfum.

Nú er það auðvitað þannig að við þurfum líka að setja okkur mörk. Ekki er hægt að tyggja alla þessa bita í einu, það verður að búta fílinn niður og taka þetta í skrefum, en mér finnst mikilvægt þegar við gerum þessa breytingu að við séum búin að ákveða hvað það er sem þurfi að skoða betur. Við tökum þetta auðvitað í skrefum, en þegar við stígum þetta mikilvæga skref finnst mér nauðsynlegt að við sammælumst um hvaða skref verði stigin í framhaldinu.

Það hefur líka verið rætt um stærð lífeyrissjóðanna innan hagkerfisins. Þeir eru auðvitað fastir innan hafta þótt vonandi geti þeir farið að fjárfesta meira erlendis, en þeir eru orðnir mjög stórir og þurftafrekir í íslensku hagkerfi. Það er lífsnauðsynlegt að þeir fari að komast út með hluta af sínum fjármunum til fjárfestinga. Við þurfum líka að fá yfirlit yfir hvernig líklegt er að það geti þróast á næstu árum. En ég tel varasamt og nánast ógjörning að afgreiða málið bara sisvona á nokkrum dögum. Ég ber virðingu fyrir því að hér hafi verið komist að samkomulagi. Við eigum að leggja okkur fram um að reyna að vinna lögin í anda þess samkomulags því að þar hafa komið að aðilar sem eiga ríkra hagsmuna að gæta. En við verðum líka að gera það með opin augun og verðum að gera það þannig að við skiljum hvaða breytingar við erum að samþykkja og vitum í hvaða samhengi við erum að samþykkja þær og hvað við ætlum að gera í framhaldinu.

Ég hef heyrt þeirri hugmynd fleygt að þetta frumvarp sem og frumvarpið um breytingar á lögum um almannatryggingar ættu að fara í milliþinganefnd til sameiginlegrar umfjöllunar. Ég tek heils hugar undir slíkar hugmyndir. Ég tel að við eigum að vanda okkur og leysa þetta þannig af hendi að við höfum raunverulegan skilning á því sem við erum að gera og séum raunverulega að gæta hagsmuna fólks varðandi framfærslu þess á efri árum.

Ég ítreka að þetta er ekki flokkspólitískt mál, þetta er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur öll. Við getum auðveldlega unnið að þessu saman og tekið okkur þann tíma sem við þurfum til að leysa þetta vel af hendi.