145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:40]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrirsjáanleikann og hvaða áhrif þetta hafi held ég að sannarlega sé hægt að finna það út með því að fara yfir málið að ákveðnum gefnum forsendum til að sjá hvaða áhrif þetta muni hafa. Um það er held ég ekki neinn vafi, en það þarf að gefa sér tíma í þá vinnu. Það þekkjum við bæði úr nefndavinnu á þinginu að það tekur sinn tíma að komast inn í mál, velta upp ólíkum spurningum og teikna upp ólíkar sviðsmyndir. Það er það sem vinna okkar gengur út á. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir þessu af því ég hef ekki náð að kynna mér þetta sérstaklega vel. Og áðan var afgreitt hingað inn frumvarp til fjáraukalaga sem ég hef verið að reyna að kynna mér, var tekið á dagskrá með afbrigðum. Það er með engu móti að maður komi hingað sæmilega búinn til leiks, hvað þá að hægt sé að afgreiða málin á nokkrum dögum.

Áhrifin eru mismunandi eftir því á hvaða aldri fólk er og hversu mikið það fer á milli markaða, þ.e. hins opinbera og hins almenna. Ég held að það sé mjög mismunandi hvaða áhrif þetta hafi. Kannski er þetta allt til bóta. Ég hef bara ekki neinar forsendur til að meta það á þessari stundu.

Síðan fer málið til fjárlaganefndar, það er rétt. Þar undir heyra lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. En nú eiga þau réttindi að fara inn í lög um lífeyrissjóði sem heyra undir efnahagsnefnd. Svo erum við í velferðarnefnd með almannatryggingakerfið. Það er auðvitað þannig að lífeyriskerfi landsmanna er í þremur stoðum, almannatryggingastoðinni sem ein nefnd er að fjalla um, lífeyrissjóðunum sem fjárlaganefnd á að fara að fjalla um og síðan erum við með séreignarsparnaðinn sem er núna (Forseti hringir.) í efnahags- og viðskiptanefnd og er verið að gera að einhvers konar húsnæðissparnaði. Þessi grundvallarréttindi (Forseti hringir.) verða núna í þremur nefndum en ekki samræmdu vinnuferli. Það er ekki (Forseti hringir.) heppilegt.