145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að við þurfum að skoða samspil þessara ólíku kerfa. Varðandi breytingar á lögum um almannatryggingar er einmitt verið að leggja upp með að lífeyrisaldur verði 70 ár. Hér er verið að færa hann úr 65 upp í 67, það er sem sagt verið að keyra annað prógramm. Okkur var sagt við kynningu á þessu að það væri síðan næsta skref. Mér finnst mjög óheppilegt að við séum að stíga ólík skref í þróun þessara kerfa samtímis í ólíkum nefndum þingsins.

Það hefur líka komið fram, í umfjöllun okkar um almannatryggingarnar, að með hækkun lífeyrisaldurs upp í 70 ár munum við auka allverulega nýgengi örorku, því að við hvert ár umfram 60 fjölgar þeim sem eiga við sjúkdóma að stríða og verða að draga allverulega úr vinnu eða yfirgefa vinnumarkaðinn. Þá mun örorkubyrðin aukast á lífeyrissjóðunum.

Nú veit ég ekki hvaða áhrif það hefur á stöðu sjóðanna hvort ég byrja 67 ára að taka ellilífeyri eða örorkulífeyri út úr lífeyrissjóðunum. Þetta er eitthvað sem þarf að skoða, tryggingastærðfræðilegar forsendur þar. Þetta hefur auðvitað áhrif á mismunandi lífeyrissjóði.

Eins og ég sagði áðan er margt undir í þessu. Við verðum einhvern veginn að afmarka okkur af því að við verðum að taka einn bita í einu. En við verðum að hafa heildarmyndina til að ákveða hvaða skref við treystum okkur til þess að stíga hverju sinni.