145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:50]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel tvímælalaust að nú, þegar allar þrjár stoðir lífeyriskerfisins eru undir, til breytinga á Alþingi, þurfi að skoða það heildstætt. Varðandi þessa vinnu við almannatryggingarnar og áhrifin inn í lífeyrissjóðina þá er vinnan þannig að þegar við fáum frumvarp til nefnda byrjum við á að fá kynningu frá ráðuneytinu, sendum frumvörpin síðan út til umsagnar, fáum gesti og smám saman fer maður dýpra og dýpra í málin. Við erum komin áleiðis í því í velferðarnefnd. Það er ýmislegt sem maður sér þarna eins og til dæmis með þennan hálfa lífeyri sem á að vera hægt að taka, en það er mjög illframkvæmanlegt mál, verður nánast ógjörningur að framkvæma það. Við fórum að spyrja okkur: Af hverju er verið að hækka þetta upp í 70 ár? Við erum með hagfelldari aldurssamsetningu en aðrar þjóðir, ætlum við líka að vera með hæsta lífeyrisaldurinn? Ég hef ekki fengið almennileg svör við því.

Einhverjir hafa sagt við mig: Það er af því að lífeyrissjóðirnir vildu það því að tryggingastærðfræðilega skiptir það máli fyrir þá. Það kom ekkert sérstaklega fram í máli Landssambands lífeyrissjóða þegar fulltrúar þaðan komu fyrir nefndina. Hins vegar sér maður, þegar maður skoðar útreikningana, að með þessari hækkun lífeyrisaldurs mun kostnaðurinn af henni sléttast út eftir 10 ár út af hækkun á lífeyrisaldri. Það eru engin sérstök haldbær rök þarna. (Forseti hringir.) Við erum svo með frumvarp sem gerir ekki ráð fyrir þessari breytingu. Við þurfum bara að taka okkur tíma og við (Forseti hringir.) þurfum að skoða þetta allt saman um leið og við berum virðingu fyrir allri þeirri vinnu sem hefur verið lögð í þetta af ýmsum aðilum.