145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er rétt ef það er metið er út frá efni frumvarpsins og þeim ræðum sem hér hafa verið haldnar m.a. af hæstv. fjármálaráðherra, að talsverð vinna liggur á bakvið þetta, sem er auðvitað gott og sér í lagi mikilvægt þegar kemur að þessum málaflokki. Hins vegar hjálpar það ekki þegar við nálgumst kosningar og þinglok að fá inn mál sem er þó ofboðslega vel unnið en það er líka ofboðslega mikið unnið. Það þýðir að það er þá meira sem þingmenn þurfa að setja sig inn í ef þeir eru ekki inni í málaflokknum þá þegar, sem er vissulega raunin í tilfelli þess sem hér stendur. Það krefst meiri tíma að fara yfir meira efni. Og því meira sem það er unnið, því meira þarf að skoða, jafnvel þótt það sé bara að kanna hvort niðurstöður þeirra ýmsu hópa og sérfræðinga sem koma að málunum samræmist pólitískum markmiðum hverju sinni, sem er ekki endilega augljóst fyrir fram, hvað þá þegar svo lítið er eftir af þinginu og svo mörg stór mál eru til umræðu.

Hv. þingmaður kom inn á aðra tengingu, þ.e. hvenær fólk kemur inn í kerfið. Það er önnur tenging sem við höfum lauslega rætt í velferðarnefnd í sambandi við almannatryggingamálið. Mér finnst það undirstrika að þetta mál þurfi í raun að vera rætt á báðum stöðum. Sumt af þessu eru mjög sambærilegar áhyggjur, sambærilegar áskoranir. Þótt hér sé tekist á um tiltekinn þátt tiltekins kerfis, nefnilega fjármálalegar undirstöður, þá er það samt sem áður þannig að ef það hefur áhrif á réttindi fólks hlýtur það líka að eiga heima í velferðarnefnd. Án þess að ég ætli að stinga upp á því með einhverjum formlegum hætti hér, alla vega ekki án þess að ráðfæra mig við aðra þingmenn utan pontunnar, velti ég fyrir mér hvort málið þurfi ekki líka að fá umsögn hv. velferðarnefndar í fjárlaganefnd þannig að fjárlaganefnd geti þá tekið tillit til þeirra álitamála sem koma upp í sambandi við velferðarhlutann af þessu öllu saman.