145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:07]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já. Það er hárrétt sem þingmaðurinn segir. Ég áttaði mig ekki á því í fyrra andsvari mínu að auðvitað er oft beðið um álit frá öðrum nefndum. Það væri klárlega við hæfi hér. Mér finnst þetta snúast fyrst og fremst um að jafna lífeyrisréttindi og jafna launamun á milli opinbera og almenna kerfisins. Það er stórmál. Ég skil að vissu leyti þær áhyggjur sem viðraðar hafa verið varðandi það að við ætlum að reyna að hífa upp laun opinberra starfsmanna þannig að þau jafnist á við laun á almenna markaðnum. En getum við einhvern veginn treyst því að það heppnist? Erum við ekki búin að vera að reyna að jafna launamun kynjanna heillengi?

Það að verkalýðsfélögin, opinber og á almennum markaði, hafi komið sér saman um og séu búin að fara í þessa vinnu og eru sátt við þetta að miklu leyti finnst mér sýna að þetta mál hefur verið vel unnið. Auðvitað á maður að vera gagnrýninn á málið en þó að það komi núna frá þessum stjórnvöldum á þessum tíma vil ég alla vega halda í bjartsýnina og segja: Byrjum að vinna þetta. Það sem er vont er að ríkisstjórnin hendir inn fullt af risastórum málum og hefur enn ekki sagt okkur hvaða mál eiga að vera í forgangi. Það er það sem mér finnst óþægilegt. Ef það væri bara þetta mál og einhver tvö önnur gætum við kannski einhent okkur í þau, en við erum með svo mikið undir að mér sem þingmanni fallast eiginlega hendur. Ég veit varla hvar ég á að byrja varðandi það allt. Það væri mjög gott skref ef stjórnvöld færu núna að kalla okkur á fund og segðu: Þetta eru málin sem við viljum klára. Ef þetta er eitt af þeim þá klárum við þetta mál. En varðandi öll hin málin sem eru líka undir veit ég bara ekki.