145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:14]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála þingmanninum um það. Ég vona, ég vil næstum segja, virðulegi forseti, að menn séu með réttu ráði og láti sér ekki detta í hug að þetta verði klárað á einni viku. En á hinn bóginn tel ég víst að málið verði tekið upp á næsta kjörtímabili. Það liggur ekki lífið á í þeim efnum.

Það varð umræða hérna áðan um hvaða nefndir fjölluðu um málið. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson lagði áherslu á að honum fyndist þurfa að fjalla um það í velferðarnefnd og í samhengi við frumvarpið um almannatryggingar. Ég er ekki alveg viss um það. Í velferðarnefnd er fjallað um almannatryggingar. Þetta er um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Þetta er ekki um okkur öll. Velferðarnefnd á að fjalla um það. Ég er alveg ósammála því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að einhvern tímann komi að því að við þurfum ekki að hugsa um almannatryggingar fyrir einhvern hóp fólks vegna þess að fólk verði búið að vinna sér inn lífeyrisréttindi. Ég er algerlega ósammála því. Auðvitað minnkar hluti almannatrygginga. Almannatryggingar eiga að vera fyrir okkur öll en ekki fyrir einhverja sem eru, ef ég leyfi mér að segja það, út undan í þjóðfélaginu. Almannatryggingar eru fyrir allt fólk. Svo eru sumir sem þurfa ekki að nota þær upp í topp. En þess vegna (Forseti hringir.) er ég alveg á móti því að þetta sé sérstakt velferðarplagg fyrir alla þjóðarheildina. Þetta er um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og við erum ekki öll starfsmenn þess.