145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:17]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski eins gott að ég er að fara að hætta á þingi því að ég er alltaf sammála síðasta ræðumanni. Mér fannst hv. þingmaður færa ágæt rök fyrir því að velferðarnefnd ætti ekkert að koma nálægt málinu. Hins vegar held ég að það sé alveg sársaukalaust í rauninni þegar kallað er eftir áliti annarra nefnda. Nefndin getur svolítið metið hvort hún telji ástæðu til þess. Það er svo sem ekkert verra að fá meiri upplýsingar.

Varðandi hvað þetta mál og mörg önnur stór mál koma seint inn vil ég minna á mikilvægi þess að þegar ráðherrar taka við völdum vindi þeir sér beint í málin og forgangsraði í ráðuneytum sínum. Við erum að fá mál sem ráðherrar hafa haft þrjú ár til þess að vinna. Þetta mál er ekki endilega eitt af þeim en ef við erum að tala um að þetta komi ofan í mörg stór mál er rétt að rifja það upp að menn eyddu gríðarlegu púðri í skuldaniðurfellinguna fyrsta árið og alls konar vitleysismál. Fyrsta málið var að hætta við að hækka skatta á gistingu sem fyrri ríkisstjórn hafði ákveðið. Mér finnst menn ekki hafa verið með forgangsröðunina á hreinu.

Nú er svo komið að ríkisstjórnin ákveður sjálf að stytta kjörtímabilið og þá verður hún að lifa með því og forgangsraða hvaða málum hún ætlar að koma í gegn. Þetta mál kemur því miður, ofan í öll önnur málin, mjög seint inn. Ég er ekki bjartsýn á að við náum að klára það. Ef við ætlum að vera hérna í viku er alveg á hreinu að við gerum það ekki. Þá er spurningin: Ætlum við að vera hérna fram í kosningar? Hvaða stemning er fyrir því? Verða þingmenn á svæðinu? Það getur jafnvel verið erfitt að manna, fá ráðherrann í óundirbúnar fyrirspurnir og í störf þingsins, fá þingmenn til að vera hérna til að taka við fyrirspurnum ef maður óskar eftir því. Þetta tímahrak sem við erum komin í er ekki gott. En þessi ríkisstjórn hefur haft þrjú ár. Hún hefði getað gert ýmislegt miklu betur á þeim þremur árum.