145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar ég hóf nám við hinn ágæta skóla Menntaskólann við Hamrahlíð var reynt að koma þar á kerfisbreytingu, um haustið, hygg ég, sem fólst í því að nemendur við skólann skyldu upp frá þeirri stundu fara að stunda íþróttir í íþróttahúsi Vals á Hlíðarenda, sem þá var í heldur hrapallegu ásigkomulagi og langt frá skólanum. Þetta sætti mikilli gagnrýni og leiddi til þess að eitt þúsund nemendur skólans efndu til allsherjarsetuverkfalls sem ég hygg að hafi staðið í eina tvo daga og skólayfirvöld vissu ekki sitt rjúkandi ráð hvernig ætti við að fást. Eftir langar og strangar samningaviðræður varð niðurstaðan sú að skólayfirvöld féllu frá áformum sínum um að láta menntaskólanemendurna stunda leikfimi, en nemendurnir féllust hins vegar á að ekki yrðu gerðar athugasemdir við að nýnemar, sem kæmu í skólann upp frá því, þyrftu að stunda leikfimi. Þannig tókst smátt og smátt að koma því á að allir nemendur við skólann stunduðu leikfimi, en þeir sem voru í skólanum einmitt þarna, þegar átti að innleiða það, sluppu allir við það.

Það er ekki alveg laust við að mér hafi komið þessi svolítið vanheilagi samningur í hug þegar ég sá þetta samkomulag um lífeyrismálin, því að sumt virðist manni a.m.k. vera skylt. Auðvitað hafði maður alltaf vissar siðferðislegar efasemdir um þetta samkomulag sem gert var í MH forðum tíð. Það sem maður hefur áhyggjur af í þessu samkomulagi — sem er merkilegt og ég tel mikilvægt að þingið skoði það með jákvæðum huga og fari vel yfir það hvort það sé ekki raunverulega það mikilvæga framfaraskref sem að var stefnt — er að verið sé að fjármagna réttindi þeirra kynslóða sem sitja núna við borðið, okkar kynslóða kannski, þannig að þær kynslóðir sleppi vel frá þessu uppgjöri, en hins vegar verði réttindi þeirra kynslóða sem á eftir koma heldur rýrari fyrir vikið. Þannig væri það svolítið eðlisskylt samkomulaginu í MH um að þeir sem á eftir kæmu skyldu þurfa að fara í leikfimi — þó að það sé út af fyrir sig jákvætt að stunda leikfimi, ég segi það nú ekki, það er öllum mönnum hollt. Það hlýtur að vera það sem við hljótum fyrst og fremst að rýna í: Hallar hér á kynslóðirnar sem á eftir koma?

Auðvitað kann það líka að vera þannig að búið sé að veita þeim kynslóðum sem nú hafa áunnið sér þessi réttindi þau og það sé hvort eð er þannig að komandi kynslóðir þurfi að borga þau, ef ekki í rýrari réttindum sínum þá einfaldlega með hærri skattgreiðslum. Það held ég að hljóti að vera stærsta áhyggjuefnið þegar menn rýna þetta frumvarp. Við höfum séð alþjóðlega þróun í þessa veru og þinginu barst einmitt nýlega býsna athyglisverð skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra, sem við þingmenn Samfylkingarinnar kölluðum eftir síðasta vor, um stöðu ungu kynslóðarinnar. Það er margt sem bendir til þess að hún búi, ekki bara á Íslandi heldur víða um lönd, í raun og veru í fyrsta sinn við lakari efnahagsleg skilyrði, þegar hún er að stíga fyrstu skrefin á fullorðinsárum, en kynslóð foreldranna gerði. Það höfum við ekki séð áður sem almenna reglu að börnin búi við lakari kjör á ungdómsárum sínum en foreldrar þeirra gerðu þegar þau voru að koma sér upp heimili og fjölskyldu.

Það er býsna alvarleg þróun ef það er að gerast ekki bara á einu sviði heldur á mörgum sviðum. Það er klárlega að gerast í húsnæðismálunum. Engum blöðum er um það að fletta að þar eru skilyrði verri en þau hafa verið fyrir kynslóðirnar á undan. Það er sömuleiðis þannig að hlutur ungs fólks í atvinnutekjum er lægri en áður var, þ.e. þau eru einfaldlega með minna kaup. Einnig er ástæða til að hafa áhyggjur af því að verið er að draga úr hlutum eins og vaxtabótum og barnabætur eru hér fráleitt jafnöflugar og við gjarnan vildum. Það gefur enn ríkari ástæðu til að hafa áhyggjur af stöðu þessarar kynslóðar. Ekki er á það bætandi að lífeyrisréttindi þeirra verði líka lakari en foreldrakynslóðarinnar. Ég treysti því að rýnt verði vel í þetta í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og skoðað hvaða áhrif þessar breytingar hafa á svokallaða kynslóðareikninga.

Hafandi sagt þessi almennu varnaðarorð þá hefur það auðvitað verið keppikefli margra, og okkar fólk í fjármálaráðuneytinu vann að því á sínum tíma, að reyna að leysa úr þessu verkefni, sem er að fjármagna verulega miklar lífeyrisskuldbindingar sem stofnað hefur verið til vegna A-deildarinnar. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni að það skuli hafa tekist. Það eru auðvitað samningarnir við kröfuhafa sem sumpart skapa hin efnahagslegu skilyrði til þess að þetta sé núna unnt. Það var þannig að hinn 12. mars 2012 flutti þáverandi stjórnarmeirihluti frumvarp til laga sem bannaði að fjármunir slitabúanna yrðu fluttir úr landi. Í framhaldinu var farið í viðræður um það hvernig hægt væri að leysa úr þeim miklu eignasöfnum þannig að Ísland stæði efnahagslega sjálfstætt og sterkt eftir. Það gerir það nú og tækifæri er til þess í ár að leggja talsverða fjármuni inn og mikilvægt að nýta það einstaka tækifæri sem afkoma ríkissjóðs á yfirstandandi ári er.

Það er líka gleðiefni að svo mörg stéttarfélög, með svo ólíka hagsmuni, skuli hafa komist að heildarsamkomulagi um það hvernig leysa megi úr þessu máli. Það var sannarlega ekki auðvelt úrlausnarefni og full ástæða til að þakka þeim mörgu aðilum sem hafa komið að því að vinna úr þessu stóra og flókna máli þeirra framlag í því. Um leið er það því miður þannig að ákveðin stéttarfélög hafa lýst sig ósammála niðurstöðunni. Ég vil leggja ríka áherslu á að þó að þetta hafi verið samkomulag á milli heildarsamtaka sé eðlilegt að nefndin, sem fær þetta mál til umfjöllunar á milli umræðna, kalli á fulltrúa þeirra stéttarfélaga sem hafa lýst sig ósammála þessu samkomulagi og fái fram þeirra sjónarmið í málinu. Það eru stéttarfélög sem varða okkur Íslendinga miklu, velferðarþjónustu og öryggismál í landinu.

Við erum hér að tala um, ef ég hef skilið það rétt, lögreglumenn, slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn, stéttarfélag hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og e.t.v. fleiri félög sem hafa farið fram hjá mér eða hafa bæst nýlega í þennan hóp. Þetta eru slíkar lykilstéttir í okkar landi að það er algjörlega nauðsynlegt að fá fram sjónarmið þeirra og kanna sérstaklega hvort það eru einhverjir þættir sem sérstaklega lúta að vaktavinnu, eða réttindum sem tengjast slíkum ákvæðum, sem halli á í þessu samkomulagi, eða a.m.k. reyna að leita eftir því hvort það er eitthvað sem þessi félög eiga sammerkt og veldur því að þau eru ekki sátt við þessa niðurstöðu, hvort með einhverjum hætti væri hægt að koma til móts við þær athugasemdir sem þessi félög gera.

Það er ákaflega eftirsóknarvert, ef það er hægt, að jafna lífeyriskjör fyrir opinbera starfsmenn annars vegar og fyrir almennan vinnumarkað hins vegar. Það auðveldar bæði tilflutning fólks milli starfa hjá hinu opinbera og á einkamarkaðnum. Það er líka sjálfsögð krafa um jafnræði. Það veldur tortryggni hjá þeim sem vinna á hinum almenna vinnumarkaði að lífeyriskjör opinberra starfsmanna séu með einhverjum hætti betri, jafnvel þó svo að opinberir starfsmenn og hið opinbera útskýri það með því að kjörin á móti, fyrir vinnuna sjálfa, séu lakari hjá hinu opinbera en á hinum almenna markaði. Þá er það vefengt og miklu betra að þetta sé bæði gagnsætt og sömu kjör séu einfaldlega fyrir sambærileg störf, hvort sem þau eru unnin á almennum markaði eða einkamarkaði.

Hins vegar er ástæða til að hafa nokkrar áhyggjur af því að fyrirætlanir um að bæta kjör ákveðinna stétta sem fylgja þessu samkomulagi, að slíkar frómar óskir, liggur manni við að segja, gangi ekki eftir. Það er forsenda fyrir því að þetta gangi upp að ákveðinn tilflutningur verði í launum á þann hátt að tilteknar stéttir taki á vissu tímabili ákveðnum hækkunum umfram aðrar. Við höfum oft og einatt séð slík áform sem hafa að engu orðið. Þess vegna er mikilvægt að byggja það inn í fráganginn á þessu í þinginu að reyna að treysta umgjörð þessara áforma sem allra best þannig að þeir sem í hlut eiga geti haft sem mest traust á því að þau gangi eftir.

Um leið er mikilvægt að huga að því hvort sá aðskilnaður sem verið hefur milli lífeyrissjóða ýmissa opinberra aðila og lífeyrissjóða á almennum markaði sé óþarfur, hvort þetta eigi að gefa frekari færi á að hagræða í rekstri lífeyrissjóðakerfis okkar, sameina sjóði, gera þá að öflugri einingum, draga úr rekstrarkostnaði þeirra þannig að sem mest af þeim fjármunum sem þeir sýsla með geti farið til þess sem þeir voru stofnaðir um, að greiða lífeyri en ekki verja því í stjórnunarkostnað af nokkru tagi.

Við, jafnaðarmenn hér áður og fyrr, höfum talað fyrir hugmyndum um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Ég held að út af fyrir sig geti þeir nú verið eitthvað fleiri, en ég held hins vegar að þeir séu allt of margir eins og nú stendur og því miður er veruleg sóun sem fylgir þeim fjölda sjóða sem nú eru reknir og full ástæða til að huga að því að treysta enn betur réttindi sjóðfélaganna með því að hagræða sem mest í rekstri þeirra og jafnframt að leitast við að tryggja sjóðfélögum bein áhrif á stjórnir þeirra, kannski ekki með því að þeir kjósi alla stjórnina í sínum lífeyrissjóði en a.m.k. að sjóðfélagar fái að kjósa nokkra fulltrúa beinni kosningu sjálfir inn í stjórnir sjóðanna.