145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Norski olíusjóðurinn, sem við nefndum áðan, er að öllu leyti, hygg ég, með fjárfestingar sínar utan Noregs, a.m.k. að mjög verulegu leyti. Það stafar af því að þar er um að ræða tímabundnar tekjur, kannski í einhverja áratugi, sem Norðmenn telja ástæðu til að ávaxta með þeim hætti. Það getur þess vegna verið hyggilegt, það fer eftir því hvaða fjármunir það eru.

Það er vinsæl skoðun nú að fara eigi með peninga lífeyrissjóðanna úr landi og ávaxta þá þar. Það hefur samt undrað mig í þeirri umræðu að unga kynslóðin skuli láta bjóða sér það, skuli ekki mótmæla því. Á meðan hæstu raunvextir í heimi eru á Íslandi og íbúðalánin hjá ungu fólki kalla á margfalt hærri vaxtagreiðslur í hverjum einasta mánuði hjá þeim en í nokkru öðru nálægu landi, hvers vegna ætti unga fólkið þá að fallast á að lánsfjármagnið sé flutt úr landi til að áfram sé hægt að halda uppi háum raunvöxtum á Íslandi?

Það er hagsmunamál gamla fólksins að fá að flytja peningana úr landi svo að hér sé takmarkað framboð af fjármunum og vextir áfram mjög háir. Hagsmunir ungu kynslóðarinnar virðast vera alveg augljósir í því að gamla fólkið fái einmitt ekki að fara með peningana sína úr landi og halda með þeim hætti raunvaxtastigi í landinu heldur eigi þessir peningar að vera hér til að fjármagna húsbyggingar fyrir nýjar kynslóðir á hagstæðum kjörum. Þetta, sem ég hefði haldið að væri einhver stærsta pólitíska efnahagslega álitamálið á Íslandi, ræðir ekki nokkur maður.