145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ég held að þetta eigi að vera blanda af báðum þessum hlutum. Ég held að almannatryggingar eigi að vera fyrir alla og vera gegnumstreymiskerfi, en sjóðsöfnun í lífeyrissjóðum eigi að bætast þar við. Ég hygg nú að þótt verulegur hluti lífeyriskerfisins sé í gegnumstreymiskerfi í Þýskalandi þá höfum við líka stór og öflug söfnunarkerfi eins og Allianz er besta dæmið um. Í Þýskalandi er það raunar þannig að þýskir lífeyrissjóðir eiga um helminginn af öllu húsnæði, hygg ég að ég fari rétt með, og reki að meira eða minna leyti sem leigufélög. Það er kannski það hlutverk sem hefur verið uppistaðan í lífeyriskerfum bæði á Íslandi og annars staðar. Mér finnst allt of mikil viðleitni hjá lífeyrissjóðunum til þess að reyna berjast frá því og yfir í einhver markaðsviðskipti. Lífeyrissjóðakerfið hefur fjármagnað lán til íbúðarhúsnæðis í landinu. Það eru um 2 þús. milljarðar í lífeyrissjóðakerfinu. Heimilin í landinu skulda 2 þús. milljarða. Það er pólitísk og samfélagsleg ákvörðun hversu miklar vaxtakröfur lífeyrissjóðirnir okkar sjálfra ætla að gera á húsnæðislánin okkar af því að þetta leggst á okkur á ólíkum tímum ævinnar. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við höfum verið að gera allt of háar ávöxtunarkröfur á ungu kynslóðina og að fyrst og fremst þurfi að endurskoða þann þátt.

En varðandi spurninguna held ég að við eigum að hafa blöndu af gegnumstreymiskerfi í almannatryggingunum og síðan sjóðasöfnun þar til viðbótar.