145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta sé jöfnunarskref. Ég held hins vegar að lífeyriskerfi okkar einkennist því miður allt of mikið af ójöfnuði, dæmin sem við höfum fyrir okkur um það eru allt of sterk.

En aftur að þessu með söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og gegnumstreymissjóði. Eftir hrun voru lífeyrissjóðirnir meira og minna þjóðnýttir. Í raun og veru breyttust þeir á tiltölulega stuttum tíma í gegnumstreymissjóði en hafa kannski að uppistöðu til verið það fyrir vegna þess að uppistaðan í eignum þeirra var náttúrlega bara skuldaviðurkenningar sem gefnar voru út af opinberum aðilum á Íslandi. Hver er munurinn á því að vera með lífeyrissjóð sem segist eiga fyrir framtíðarskuldbindingum sínum og það sem hann á er bara skuldabréf á ríkissjóð og sveitarfélög, eða að vera með sjóð sem segist hafa skuldbindingu hins opinbera til þess að borga lífeyri í framtíðinni? Í raun er hvort tveggja bara gegnumstreymissjóðir til framtíðar þannig að um eiginlega sjóðasöfnun verður ekki að ræða nema um sé að ræða eignir í öðru en opinberum pappírum eða erlendar eignir, eins og við ræddum í andsvörum áðan.

Það má spyrja sig að því hversu skynsamlegt það sé fyrir ríkið hafa yfir höfuð milligöngu um það. Átti ríkið til að mynda að vera með Íbúðalánasjóð sem hafði milligöngu um að lífeyrissjóðirnir lánuðu sínum eigin sjóðfélögum, og taka síðan á sig 200–300 milljarða tap á þeim viðskiptum? Af hverju eiga lífeyrissjóðirnir bara ekki að annast þær íbúðalánaveitingar til sinna eigin sjóðfélaga með beinum hætti? Maður spyr sig.