145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[16:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta er nú tvímælalaust eitt af stærri málum sem komið hefur á borð okkar þingmanna á þessu þingi og jafnvel þótt fleiri þing væru tekin. Málið er eiginlega mjög stórt af tveimur ástæðum. Annars vegar er það af því að tölurnar í því eru mjög stórar, hér er um að ræða ráðstafanir í hagkerfinu upp á 100 milljarða plús/mínus, og svo er þetta auðvitað stórt mál og búið að vera lengi eitt af stóru málunum í lífeyrismálum okkar og ein af stóru framtíðarspurningunum um lífeyriskerfið í landinu. Að sjálfsögðu er það fagnaðarefni svo langt sem það nær að hér sé komin niðurstaða eftir áralangar viðræður og viðleitni til að ná að borðinu og samræma lífeyrisréttindin, lífeyrisréttindaávinnsluna í landinu og gera kerfið einsleitara en áður var. Þeir sem lengi hafa fylgst með þessum málum vita náttúrlega af spennunni sem verið hefur oft uppi milli almenna vinnumarkaðarins og almennu lífeyrissjóðanna annars vegar og opinbera vinnumarkaðarins og opinberra lífeyrissjóða hins vegar.

Menn hafa lengi rætt um að samræma þetta og hugmyndirnar verið af ýmsum toga, allt upp í að búa til einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Það er í sjálfu sér ekki aðalatriði málsins hvort lífeyrissjóður eru einn, tveir eða fleiri, heldur eru það lífeyrisréttindin og réttindaávinnslan sem er stóra málið í þeim efnum.

Ég vil taka það skýrt fram þó ég muni hér á eftir viðra ýmsar efasemdir um þetta mál og sérstaklega einhverja flýtiafgreiðslu á því að ég er að sjálfsögðu eindreginn stuðningsmaður þess að við jöfnum lífeyrisréttindi landsmanna og byggjum vinnumarkaðinn og síðan samfélagið á einsleitri réttindaávinnslu þannig að staða manna sé sem allra jöfnust óháð því hvort þeir eru á almennum eða opinberum vinnumarkaði, hafi þar af leiðandi ekki teljandi áhrif þótt þeir færi sig á milli né á hvaða skeiði ævinnar það er. Það hljóta allir að sjá að þetta er stórkostleg framför fyrir alla, fyrir þá sem eru á vinnumarkaði, fyrir þá sem í hlut eiga þannig, en líka fyrir vinnuveitendurna og atvinnulífið og hið opinbera.

Árið 2009 sammæltust menn um það í tengslum við svokallaða stöðugleikasamninga, sem margt gott leiddu með sér, að setja kraft í þessa vinnu. Ég fylgdist með henni næstu árin og reyndi að leggja því lið að þetta væri unnið áfram, en niðurstaðan var alltaf lengi vel að það væri samt skynsamlegra að gefa hlutunum tíma heldur en keyra eitthvað áfram með offorsi. Sú hefur líka orðið raunin á í tíð núverandi hæstv. fjármálaráðherra, hann hefur gefið þessu tíma í yfir þrjú ár og samkomulag náðist nú á dögunum. Það eru veruleg tímamót.

Ég hygg að megi segja og tek undir með hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sem vonandi er ekki langt undan þegar ég tala svona fallega um hann, að að sjálfsögðu er það gríðarlega stórt mál fyrir Ísland ef okkur tekst vel til áfram með að byggja upp fullfjármagnað og samræmt lífeyrisréttindakerfi fyrir alla landsmenn. Við erum með sterkan efnivið í það þótt það hafi verið óleyst verkefni eins og þessi sem snúa að tvískipta lífeyrismarkaðnum og tilteknum framtíðarskuldbindingum sem við eigum enn eftir að leggja inn á.

Hæstv. ráðherra nefndi, og ég hafði gaman af því, að matsfyrirtækin gera ekki mikið með það hvernig mismunandi þjóðir standa að vígi hvað varðar að hafa byggt upp og lagt í sjóði til að eiga fyrir framtíðarlífeyrissparnaði. Nú er það þannig með Ísland að við erum í fremstu röð í heiminum ásamt með, og það hefur væntanlega ekki breyst mikið, Hollandi og Sviss, við eigum hæst hlutfall hreinna eigna miðað við verga landsframleiðslu í eignum til að greiða út lífeyri, um 150–160% trúi ég það sé hjá okkur í augnablikinu. Holland og Sviss hafa verið á svipuðum slóðum.

Noregur með sinn olíusjóð, sem þeir öðrum þræði líta að sjálfsögðu á sem eftirlaunasjóð þó að hann sé vissulega fyrst og fremst fjárfestingarsjóður til að taka olíugróðann úr umferð og kveikja ekki í norska hagkerfinu og leggja til framtíðar, t.d. þegar olíutekjurnar fara minnkandi þá geti menn jafnað út það áfall. Við reiknuðum það einhvern tímann út að gamni að Íslendingar áttu meira í lífeyrissjóðum og það var fljótlega eftir hrunið, fljótlega eftir að þeir höfðu orðið fyrir nokkru höggi, samt átti Ísland meira í lífeyrissjóði á mann en Noregur í sínum norska olíusjóði.

Fram hjá þessu er mjög oft horft þegar staða þjóða er borin saman. Þess var ég áskynja rétt eins og núverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra benti á. Ég notaði þetta t.d., benti matsfyrirtækjum og fjárfestum á þetta 2011 þegar við vorum í mikilli kynningarlotu í aðdraganda þess að ríkið gaf út skuldabréf á erlendum markaði í fyrsta sinn í ein sjö ár, eða fimm, sex ár, 2011. Ég benti mönnum á að skoða það hvernig við værum á vegi stödd að þessu leyti borið saman við aðrar þjóðir sem voru, að mínu mati, með of hátt lánshæfismat vegna mikilla innbyggðra veikleika í þeim efnum, svo maður tali ekki um þjóðir sem eru í bullandi efnahagsþrengingum eins og Grikkir. Ég ætla ekki að fara í þá sorgarsögu hér en það er t.d. eitt sem er þeim mjög erfitt og það er að þeir eiga nánast enga lífeyrissjóði, mjög afmarkað þá fyrir tiltekna hópa. Landið sem slíkt er nánast án eigna upp í framtíðarlífeyrisgreiðslur og þar er eftirlaunaaldur alveg niður í 55 ár. Þið getið ímyndað ykkur hvernig það dæmi lítur út.

Bandaríkin eru til að mynda í miklum vanda þarna, ef það væri allt saman fært til bókar. Þeir eiga gríðarlegar ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar gagnvart hermönnum, opinberum starfsmönnum og ýmsum öðrum slíkum. (Gripið fram í.) Já, já og fleiri þjóðir. Þetta er alveg sjálfsagt að lyfta fram. Þess vegna hef ég alltaf eindregið mælt því góða skrefi bót og talað fyrir því að það var gæfuspor fyrir Ísland að ramba inn á þá braut um 1970 að hefja uppbyggingu söfnunarsjóða en ekki veðja á gegnumstreymiskerfi.

Varðandi niðurstöðuna skil ég vel að þeir sem horfa á sína stöðu og þá sem þegar er inni í menginu telji þetta ágæta niðurstöðu. Það er hún fyrst og fremst vegna þess að ríkið reiðir fram núna í fjármunum allt sem þarf til að rétta A-deildina af. Það er í raun rausnarlegri niðurstaða af hálfu ríkisins en ég hygg að menn hafi reiknað með þar sem oft var rætt um að einhverja blöndu yrði væntanlega að fara, hækkun lífeyrisaldurs, jafnvel hækkaðra iðgjalda og svo kæmi ríkið með eitthvað í púkkið. Hér reiðir ríkið þetta fram og gerir líka vel við sveitarfélögin, tekur af þeim skuldbindingar upp á um 20 milljarða kr.

Ég skil því vel að þeir sem horfa á sína stöðu og eru þegar inni í menginu telji að þetta sé nokkuð gott. Það er sérstaklega með varúðarsjóðum og lífeyrisaukasjóðum tekið á því að enginn missi í neinu við breytinguna, þeir sem eru inni í menginu núna. Staðan lítur allt öðruvísi út til framtíðar litið. Þar held ég vakna áhyggjurnar og án efa er það einn þátturinn í því að fjögur fjölmenn félög innan opinberra starfsmanna og t.d. sjálfstætt félag eins og Félag hjúkrunarfræðinga er ósátt við þessa niðurstöðu. Það getur annars vegar verið af því að menn séu meira að horfa á framtíðina heldur en núið og/eða að viðkomandi hópar telji sig ekki sem slíka koma nógu vel út úr dæminu.

Að því þarf að sjálfsögðu að hyggja. Það getur ekki verið ætlunin að sulla þessu gríðarlega stóra máli í gegnum Alþingi án þess að allir fái að koma sjónarmiðum sínum vel að. Við megum gæta okkar í því að gera engin mistök þótt við séum velviljuð því að sjálfsögðu er freistandi að reyna að læsa þessa niðurstöðu inni eftir þetta samkomulag. En það fer svo sem ekkert heldur ef þingið er samstillt í því að vinna að þessu máli vel, þá verður það bara að ráðast hvort það er boðlegt hvað vinnubrögð snertir að klára þetta núna.

A-deildin er sem sagt meðhöndluð með þessum hætti. En inn í þetta koma síðan mörg önnur mál sem sum hafa verið nefnd, eins og það að hér á að hækka lífeyristökualdurinn um tvö ár. Það er til ákveðins samræmis. Það er þá minna bil á milli opinberra og almenna markaðarins, einmitt þegar verið er að stefna að hækkun þar, og í almannatryggingalögum er hins vegar stefnt að því mánuð fyrir mánuð að hækka eftirlaunaaldurinn úr 67 í 70 ár. Það er mörgum stórum spurningum ósvarað í tengslum við þau mál öllsömul.

Ég nefni það í leiðinni að það hefur allt of lítill gaumur verið gefinn að því að staða einstakra hópa, mismunandi starfsstétta, er mjög ólík þegar kemur að því að taka á sig hækkun eftirlaunaaldurs. Hvað með erfiðisvinnustéttirnar sem eru býsna slitnar nú þegar miðað við núverandi eftirlaunaaldur? Er ekki ansi hætt við því að nýgengi örorku vaxi hratt ef við bætum þremur árum við hjá fiskvinnslufólki, múrurum? Auðvitað þekkjum við aðrar stéttir eins og sjómenn, lögreglumenn og slíka sem hafa talið sig eiga að hafa sveigjanleika til að geta hafið töku lífeyris fyrr vegna mikils álags í starfi og slits. Að því þarf að hyggja.

Það er óumflýjanlegt að gera greiningar á því hvernig þetta kemur við einstaka hópa o.s.frv. Það þarf líka að skoða vel samspil almannatrygginganna og lífeyrissjóðanna, það þarf þess hvort sem er, en þetta gefur okkur tilefni til að horfa þar á ýmsa hluti. Hæstv. ráðherra segir, og alveg réttilega, það er engin stórspeki, að þessi uppbygging lífeyrissjóðanna og auknar greiðslur frá þeim létti byrðum af ríkinu í almannatryggingakerfinu. Í því þarf að hyggja að tvennu.

Það er annars vegar millibilstíminn sem við erum stödd á. Enn eru 15–25 ár eftir þangað til lífeyrissjóðakerfið er að segja má fulluppbyggt fyrir alla í skilningnum að þá er nógu langt um liðið frá 1998, að allir hafa greitt af öllum tekjum sínum í lífeyrissjóð. En það er ekki fyrr en að þó nokkrum árum í viðbót liðnum sem það er eiginlega orðið yfirgnæfandi vægi. Við skulum ekki gleyma því að fram til áranna 1995–1998 þegar má segja síðasta stóra breyting eigi sér stað eftir langt ferli, það er ekki fyrr en þá sem allir eru skyldugir til að greiða í lífeyrissjóð af öllum tekjum sínum. Sumir voru fram undir það utan lífeyrissjóða og menn höfðu ekki greitt nema af dagvinnulaunum. Nú er þetta að telja inn af vaxandi þunga í kerfinu ár frá ári og innan 15–25 ára verður þetta að mestu leyti orðið þannig að þá er fólk að komast inn á eftirlaunaaldur sem hefur greitt af öllum tekjum sínum í lífeyrissjóð yfirgnæfandi hluta ævinnar.

Það verður samt ekki þannig að allir verði í þeirri stöðu. Þess vegna þurfum við að huga að því samhengi líka. Tveir hópar munu augljóslega ekki verða í þeirri stöðu að eiga í vændum sæmilegan lífeyri út úr lífeyrissjóðum eftir 10, 25 ár. Það verða náttúrlega þeir sem aldrei hafa komist inn á vinnumarkaðinn, öryrkjar. Það verða þeir sem hafa búið eða búið og starfað erlendis hluta ævinnar og eftir atvikum myndað lífeyrisrétt annars staðar og geta tekið hann til sín heim, en ekki endilega.

Það verður einn hópur enn, herra forseti, sem af vaxandi þunga kemur inn í þetta kerfi okkar á næstu árum og það er fólk af erlendum uppruna sem flytur hingað og inn á vinnumarkaðinn eða í samfélagið á miðjum aldri og mun þar af leiðandi aldrei ná að byggja upp nema sirka hálfan lífeyrisrétt og heldur ekki rétt til greiðslna úr almannatryggingakerfi, vegna þess að þar kemur svonefnt búsetuhlutfall við sögu og menn mynda rétt þar í samræmi við þann árafjölda sem þeir hafa verið með lögheimili í landinu.

Þessi hópur fer vaxandi. Þess vegna mun gamla módelið ekki verða eins og menn einu sinni héldu, að þetta væri einsleitt samfélag þar sem allir verða komnir með fullan lífeyrissjóðarétt og þar taki að mestu leyti almannatryggingakerfið yfir. Það verður ekki þannig. Við munum þurfa öflugt almannatryggingakerfi til að styðja við bakið á þeim sem minni rétt hafa myndað ef við ætlum ekki að hafa gjá í lífskjörum þeirra hópa sem eru að færast inn á eftirlaunaár á komandi árum.

Þess vegna þyrftum við að geta gefið okkur góðan tíma til að fara yfir þetta mál, fara yfir stóra almannatryggingafrumvarpið, skoða þetta, rýna inn í framtíðarsamhengið. Það er hrollur í mér, ég verð að segja að ég tel mig ekkert verkkvíðinn mann, herra forseti, en það er dálítill hrollur í mér ef menn ætla að lenda þessum stóru kerfisbreytingum báðum, nýju almannatryggingalöggjöfinni og þessari grundvallarbreytingu í lífeyrissjóðamálum, á örfáum sólarhringum. Ég verð hreinlega að segja: Verði þeim að góðu sem vilja þá keikir standa fyrir því að þetta hafi fengið nógu góða skoðun. Ég er allur af vilja gerður til þess að við reynum að standa þverpólitískt á bak við þessi mikilvægu mál og vinna þau eins vel og langt og við komumst og ekki lengra fer ég, það er þannig.

Síðan hefði verið æskilegt ef hæstv. fjármálaráðherra hefði aðeins gefið okkur gleggri mynd af tvennu sem er mjög fljótandi enn þá í þessum efnum. Það er í fyrra lagi: Hvernig verður háttað greiðslum eða endurgreiðslum þeirra stóru ríkisaðila (Forseti hringir.) sem eiga sjálfir að taka á sig inngreiðslurnar vegna A-deildarinnar, gera það (Forseti hringir.) upp við ríkið? Hvernig verður greiðslan af hendi reidd (Forseti hringir.) upp á 90 milljarða frá ríkinu? Hvernig verður hún samansett (Forseti hringir.) nákvæmar heldur en kannski 1/3: 1/3: 1/3?