145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem var fróðleg eins og endranær. Ég hygg að það sé hæpið að við náum þessum báðum málum í gegn á þessu þingi, sér í lagi vegna þess að við höfum ekki fengið neina forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á málum þannig að við getum heldur ekki forgangsraðað okkar vinnu í samræmi við það, vandamál sem við í minni flokkunum glímum stanslaust við, að vita ekki fyrir hvaða próf við eigum að læra heima, hvað þá hvenær, sem er óþolandi. Nóg um það, það er ekki hv. þingmanni að kenna.

Ég hef sömu áhyggjur og hv. þingmaður af almannatryggingakerfinu í framtíðinni þegar það er orðið ljóst að þetta verður ekki eins og menn ætluðu sér í upphafi og gerðu ráð fyrir að samfélagið yrði mjög einsleitt í mjög langan tíma. Það er vegna þess að mismunandi hópar afla sér misjafnra réttinda eftir því sem tíminn líður. Þessu hef ég verulegar áhyggjur af eins og reyndar því almennt hvernig samfélagið bregst við svo stórum og viðamiklum breytingum á samsetningu þjóðar eins og við eigum við að etja og ég hygg langflestar þjóðir sömuleiðis og munu halda áfram að gera.

Þá velti ég fyrir mér hvort næsta skref sé þá ekki að huga að einhvers konar alþjóðlegu samstarfi um almannatryggingar. Ég hendi þessu fram vegna þess að ég veit að hv. þingmaður þekkir málaflokkinn mjög vel og hefur verið mjög lengi á Alþingi og vil spyrja hvort eitthvað slíkt sé raunhæft eða hver fyrstu skrefin væru ef menn vildu pæla í slíku. Ég tel einsýnt og óttast það að ef það verður mjög skýr munur á þeim þjóðfélagshópum sem hafa þessi réttindi og þeim sem hafa þau ekki mun það valda togstreitu sem við viljum forðast ef við mögulega getum. Það eina sem mér dettur í hug er alþjóðlegt samstarf um almannatryggingar. Hvaða aðrar leiðir, ef einhverjar, gætum við farið ef ekki þá leið?