145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

(Forseti (EKG): Forseti verður nú að fara að leiðrétta sig varanlega, er búinn að kynna þennan hv. þingmann svo oft til leiks hér í púltinu. Hafði með pennaglöpum sínum ruglað sjálfan sig í ríminu.)

Ég þakka virðulegum forseta fyrir. Það hefur að vísu stundum komið til tals að ég yrði fluttur milli kjördæma en niðurstaðan hefur alltaf orðið sú að ég hef haldið mig fyrir norðan og ég hyggst gera það enn um sinn. (Gripið fram í.)

Í fyrsta lagi varðandi vinnuna að þessu þá væri þetta, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir mun hafa nefnt í gær, náttúrlega alveg dæmigert stórmál sem þingið þyrfti að gefa sér góðan tíma til að fjalla um og væri gott að setja í milliþinganefnd til að hafa samfellu í skoðun á. Þannig var þetta unnið 1995–1998 þegar síðasta stóra breyting kom inn, það var niðurstaða kjarasamninga í árslok 1995 sem setti það mál af stað. Það var unnið hér í tvö ár í nefndum og síðan í þinginu og milliþinganefnd og annan þingvetur og tók gildi 1998 ef ég kann þá sögu rétt.

Varðandi aðra hluti sem snúa að framtíðinni. Ég nefni aftur þessa hugmynd sem er svo sem ekkert ný og kannski ekki bara mín að langbest væri að lífeyrisréttindaávinnsla allra væri jöfn á starfsaldursskeiðinu hvort sem menn væru á vinnumarkaði eða ekki. Þeir sem þurfa stuðning frá samfélaginu til framfærslu, öryrkjar og aðrir slíkir, þeir sem eyða hluta ævi sinnar í nám — kerfið væri útbúið þannig að það væri greitt fyrir þá í lífeyrissjóð, þeir mynduðu lífeyrisrétt. Fyrir ríkið mundi þetta þegar upp væri staðið ekkert endilega kosta meira, en stóri munurinn yrði sá að allir yrðu eins settir á eftirlaunaskeiðinu. Ef við vöndum okkur ekki hér þá verða þeir hópar líka verst settir sem eftirlaunamenn sem hafa átt erfiðast á starfsævinni. Það er svo ósanngjarnt að menn skuli eftir erfiðisvinnu fyrir lág laun eða flutninga milli landa eða annað því um líkt líka þurfa að eyða efri árunum við bág kjör.

Síðan er það rétt sem hv. þingmaður sagði að það þyrfti að vera hraðari ávinnsla hjá tilteknum (Forseti hringir.) hópum, sjómönnum, bændum, múrurum, lögreglu, þannig að þeir gætu fyrr hafið töku (Forseti hringir.) lífeyris án skertra réttinda. Þá þarf að byggja inn hraðari ávinnslu með sérsamningum fyrir þá hópa.