145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:41]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér hélt hv. þingmaður langa ræðu, tíu mínútna ræðu, (HHG: Korter.) korters ræðu, byrjaði á því að segja að þetta væri risamál og við hefðum ekki nægan tíma að lesa það og eyddi svo restinni af ræðutímanum til að fjalla um allt annað en málið. [Hlátur í þingsal.] Að vísu er þetta risamál í þeim skilningi að það eru gífurlegir hagsmunir undir fyrir sjóðfélaga í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, en þetta er ekkert flókið mál. Það sem verið er að gera hér er að ríkið er að leggja til fjármuni svo sjóðurinn verði sjálfbær, að ekki þurfi að hækka iðgjöldin. Þetta er gífurlegt hagsmunamál fyrir sjóðfélaga. Það er búið að tala um þetta lengi. Það er líka verið að samræma og jafna lífeyrisréttindi í landinu. Þetta er allt þekkt umræða. Það er búið að reyna að ná þessu samkomulagi lengi. Svo næst samkomulag og þá telja menn sig ekki geta afgreitt þetta á viku af því að það er verið að tala um eitthvað allt annað, tala um borgaralaun, hvort taka eigi greiðslur strax til öryrkja og borga í lífeyrissjóð. Það er bara allt önnur umræða, allt önnur.

Ég vil fá frekari rökstuðning fyrir því af hverju við getum ekki afgreitt þessi atriði, þetta frumvarp, á einni viku. Það er búið að vinna þetta í óratíma. Við vitum allt um þetta. Þetta er bara spurning um að taka pólitíska ákvörðun. Viljum við þetta eða ætla menn og sjóðfélagar virkilega að berjast gegn þessu og reikna með hækkun á iðgjöldum um ókomna framtíð?