145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

störf þingsins.

[11:06]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Framtíðarstefna stjórnvalda í fæðingarorlofsmálum hefur verið lögð fram. Helstu markmið þeirra breytinga sem kveðið er á um er að tryggja börnum samvistir við báða foreldra sína jafnframt því að gera foreldrum betur kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Í því skyni er lögð áhersla á að raska sem minnst tekjum heimila þegar foreldrar leggja niður störf í fæðingarorlofi til að annast börn sín. Hér er um að ræða mikilvæg markmið og það er ábyrgðarhlutverk okkar stjórnmálamanna að koma þeim markmiðum í framkvæmd. Nú er það svo að undanfarin ár nýta færri feður sér sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs. Jafnframt er það svo að færri feður nýta sér að fullu þá þrjá mánuði sem þeir eiga rétt á til fæðingarorlofs. Þessi fækkun hefur átt sér stað frá því að hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði voru skertar árið 2009. Þessu verða stjórnmálamenn að bregðast við og í framtíðarstefnu stjórnvalda í fæðingarorlofsmálum eru lagðar til nokkrar tillögur í átt að betrumbótum.

Í núgildandi lögum fær foreldri fæðingarorlofsgreiðslur sem nema 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu tímabili, en þó aldrei hærri upphæð en 370 þús. á mánuði. Í framtíðarstefnunni er lagt til að foreldrar fái 300 þús. af viðmiðunartekjum óskertar og 80% af þeim viðmiðunartekjum sem eru umfram 300 þús. á mánuði. Auk þess er lagt til að hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækki upp í 600 þús. á ákveðnu tímabili. Jafnframt er lagt til að fæðingarorlofið verði lengt í áföngum þannig að samanlagt verði fæðingarorlof á vinnumarkaði lengt úr níu mánuðum í tólf. Gert er ráð fyrir að lengingin taki gildi í áföngum með það að markmiði að hvort foreldri um sig geti átt rétt til fimm mánaða fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks, en að sameiginlegur réttur foreldra verði tveir mánuðir.

Um þessi málefni viljum við framsóknarmenn standa vörð og höfum gert. Fyrsta löggjöf um að barn njóti bæði samvista við móður og föður var sett á fót undir forustu hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar framsóknarmanns. (Forseti hringir.) Mikilvægt er að við tryggjum þetta jafnræði áfram.


Efnisorð er vísa í ræðuna