145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

störf þingsins.

[11:08]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Aldrei þessu vant ætla ég að ræða í störfum þingsins um störf þingsins. Skipulag hins háa Alþingis er ekki upp á marga fiska þessa dagana. Það er helst út af því að ríkisstjórnin er í einhverri tilvistarkreppu. Við sjáum hvert nýja stóra málið koma inn á þing, vanalega tilkynnt í fjölmiðlum áður en við fáum að vita af því. Eigum við bara að taka því? Stjórnarandstaðan á að gera svo vel að koma þessu öllu í gegn, helst eins og ríkisstjórnin vill það, ekki breyta nokkrum staf eða nokkrum hlut. Það er eins og stjórnarandstaðan eigi að haga sér eins og lúbarinn hundur.

Þetta, virðulegi forseti, kalla ég frekjukallapólitík af verstu sort. Það er kominn tími til þess að stjórnarliðar og ríkisstjórnin setjist niður og skoði hvaða mál það eru sem hún vill fá í gegn. Það er ekki þannig að allt komist í gegnum hið háa Alþingi. Það er þingræði. Það eru ákveðin tímamörk sem við erum að reyna að vinna með.

Virðulegur forseti. Verður eldhúsdagur t.d. á mánudaginn? (Gripið fram í: Það getur nú ekki …) Eru einhverjar breytingar þar á? Eigum við von á því að starfsáætlun þingsins breytist núna í svona tíunda eða tuttugasta skipti? Er ekki kominn tími til að við byrjum að vinna aðeins saman og reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig við ætlum að ljúka þessu þingi? Eins og þetta er núna er eiginlega komið nóg. Ég skil ekki alveg hvað við erum að gera hérna. Mér sýnist meiri hlutinn ætla að trukka öllu í gegn, alveg skítsama um allt annað.

Störf þingsins eru í molum. Það er ekki stjórnarandstöðunni að kenna heldur ríkisstjórn í tilvistarkreppu undir forustu hæstv. forsætisráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar.