145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

störf þingsins.

[11:10]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að vera á svipuðum nótum og sú sem hér stóð á undan mér varðandi þinghaldið og hvernig þessu öllu saman hefur undið fram. Hér er gumað af hallalausum fjárlögum sem er vissulega alltaf jákvætt og við viljum hafa hallalaus fjárlög, en á móti kemur að við erum að fresta mjög mikilvægum innviðauppbyggingum, og það hefur verið gert í þessi þrjú ár, inn í framtíðina og svo korteri fyrir kosningar er verið að búa til kosningaplagg, eins og í samgönguáætlun sem hefur ekki fengist afgreidd úr nefndinni í þrjú ár, ekki fyrr en núna, og tekur miklum breytingum. Það er í sjálfu sér af hinu góða vegna þess að það er nauðsynlegt að byggja upp innviðina, en þetta lyktar óneitanlega af því að það eru að koma kosningar. Það eru risavaxin mál sem hér eru komin inn, LÍN-frumvarpið margumtalaða, lífeyrissjóðsmálin. Ég var á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í gær og þar hafði fólk miklar áhyggjur af því að réttindi þess verði seld fyrir það og ekki komi til launauppbætur sem hægt sé að treysta á. Það kom fram hjá mjög mörgum í gær.

Hér er verið að reyna að troða í gegn málum sem ríkisstjórnin ætlaði sér að ljúka á fjórum árum. Það er bara þannig. Núna eru að detta inn risavaxnar kerfisbreytingar sem á ekki að fá að taka almennilegt samtal um. Það er óásættanlegt. Það á að vera þannig í öllum stórum kerfisbreytingamálum, og ég vona að þing framtíðarinnar geri það hverjir svo sem verða við völd hverju sinni taki, að tekin sé þverpólitísk samræða, líkt og við gerðum í útlendingalögunum. Það þarf í stórum málum, þegar við erum að fjalla um kerfisbreytingar sem snerta gríðarlegan fjölda fólks.

Varðandi þinghaldið er það auðvitað rétt að ríkisstjórnarflokkarnir koma sér saman um afar fátt og það er ástæðan fyrir því að mál fást seint afgreidd út úr ríkisstjórnarflokkunum og hingað inn í þingið.


Tengd mál