145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

störf þingsins.

[11:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Menn leika sér oft að málflutningi pírata með því að láta eins og við ætlum að rústa samfélaginu og afnema öll kerfi og skipta þeim út fyrir eitthvað handahófskennt. Af því tilefni að við erum á eftir, væntanlega seinna í dag, að fara að greiða atkvæði um mál sem umdeilt er hvort standist 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er þess virði að minnast þess að við höfum núna í mörg ár verið að ræða þau málefni og komist að þeirri niðurstöðu að Alþingi hefur ekki enn þá komið á framsalsákvæði í stjórnarskrá. Sú umræða hefur verið í mjög langan tíma.

Í 111. gr. frumvarps stjórnlagaráðs og sömuleiðis frumvarps stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem lagt var fram á 141. þingi kemur fram, með leyfi forseta:

„Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst. Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.“

Hér var ég að lesa upp úr frumvarpi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Sú hugmynd að ætla að taka upp nýja stjórnarskrá sem inniheldur ákvæði sem okkur hefur lengi vantað er ekki „að rústa kerfinu“. Það á ekki að taka burt stjórnarskrána og skipta henni út fyrir ekkert. Það er algerlega til skammar að á öllum þessum tíma hafi Alþingi ekki drattast til þess að ræða stjórnarskrármálið af þeirri alvöru og í þeim forgangi sem það mál á skilið að vera í, óháð því hvort menn vilja nákvæmlega þetta frumvarp eða eitthvað annað. Ef menn vilja eitthvað annað, gott og vel, ræðum það þá. Það hefur ekki gerst nema í lokaðri nefnd sem skilaði á endanum engu um þennan tiltekna málaflokk, þ.e. framsal ríkisvalds.

Ábyrgðin er Alþingis. Það þýðir ekkert að kenna pírötum um þann glundroða sem atkvæðagreiðslan á eftir gæti haft í för með sér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna