145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

störf þingsins.

[11:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér er lítt skemmt að koma upp á eftir þessari síðustu ræðu. Maður spyr: Hvaða tilgangi á svona málflutningur að þjóna? Að útmála það hversu hratt útgjöld séu að aukast vegna þess að við að okkar litla leyti erum að takast á við þann risavaxna vanda sem við er að glíma varðandi flóttamenn og landlaust fólk um veröld víða. Það hefði verið nær (Gripið fram í.) ef hv. þingmaður hefði talað um þetta úr hinni áttinni. Er þetta nýi talsmaður Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki eftir sigur í prófkjöri í Suðurkjördæmi, hafandi fellt Unni Brá Konráðsdóttur sem talaði með talsvert öðrum hætti um þessi mál?

En ég ætlaði annars að gleðjast yfir því að þegar stjórnarliðar koma hingað upp, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, og hæla sér af hallalausum fjárlögum og eigna sér það sem mikið afrek. Ég er ákaflega ánægður með þennan málflutning, því að staðreyndin er sú að núverandi ríkisstjórn fékk í hendur ríkissjóð í jöfnuði. Árið 2013 var ríkissjóður kominn í jöfnuð eftir mesta hallarekstur sögunnar frá hruni. Vel á þriðja hundrað milljarða kr. bati borið saman við niðurstöður ríkisreiknings fyrir árið 2008, sem var síðasta árið þá sem Sjálfstæðisflokkurinn bar ábyrgð á ríkissjóði. Það er rétt, við löguðum afkomu ríkissjóðs um hátt á þriðja hundrað milljarða á síðasta kjörtímabili. Ríkisstjórnin fékk í hendur hallalausan rekstur ríkissjóðs, ríkissjóð í jöfnuði. Og við eigum sem sagt að þakka þeim fyrir að hafa ekki farið með hann í halla aftur. Er það ekki? Það er afrekið sem þið eruð svona stoltir af, að hafa ekki farið að reka ríkissjóð aftur með halla. Haldið þessu endilega sem lengst áfram.

Ég ætla svo að þakka fyrir að hæstv. forsætisráðherra vaknaði af dvalanum og hér er búið að festa kjördag. Við vitum þá hvar við stöndum gagnvart því. Það skilur hins vegar eftir mikið viðfangsefni hér innan veggja, að takast á við það hvað er nauðsynlegt að gera, hvaða ráðstafanir, á þeim örfáu dögum sem við eigum eftir, er nauðsynlegt að gera þannig að (Forseti hringir.) hægt sé að kjósa. Það er augljóst mál: Aðeins brot af þeim stórmálum sem nú eru í höndum þingsins ná hér einhverri eðlilegri afgreiðslu. Við verðum að vera raunsæ gagnvart því og vönd að virðingu okkar gagnvart því að hér fari ekki að eiga sér stað (Forseti hringir.) einhver subbuskapur í óvönduðum vinnubrögðum.


Efnisorð er vísa í ræðuna