145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

störf þingsins.

[11:22]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Enginn málflutningur er eins ömurlegur og eins mikil forsmán og að stilla upp tveimur hópum samfélagsins hvorum gegn öðrum í staðinn fyrir að horfast í augu við ástæðuna fyrir því að þeir sem eru aldraðir, veikir eða öryrkjar þurfi að búa við erfið kjör. Það er hreinlega léleg forgangsröðun á þeim auði sem við eigum hér sameiginlega. Málflutningur þess þingmanns sem hér talaði áðan, hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar, er nákvæmlega eins og málflutningur þeirra sem vildu ekki taka á móti gyðingum í neyð og sendu þá til baka. Mér er svo gjörsamlega misboðið að hlusta á svona málflutning og stórkostlega misboðið að þetta sé maður sem situr hér á Alþingi fyrir einn af stærstu flokkum landsins. Mig langar því að spyrja aðra þingmenn Sjálfstæðisflokksins hvort þetta sé almennt hugarfar á þeim bæ.

Mig langaði að benda á að við höfum örfáa daga til stefnu og ríkisstjórnin kemur hér inn með gríðarlega flókin mál, grundvallarbreytingar á samfélagi okkar eins og t.d. miklar breytingar á lífeyrissjóðakerfinu sem hafa ekki fengið nægilega umræðu í samfélaginu. Það er ljóst að frumvörpin voru skrifuð í miklum asa á örfáum vikum áður en þau voru lögð fram. Ég hvet því forseta til að taka af skarið og forgangsraða og taka út þau mál sem eru klárlega mál sem hægt er að vinna á milli þinga eða kjörtímabila og taka út mál sem er klárlega mikil og víðtæk andstaða við, hvort heldur hér innan veggja eða úti í samfélaginu.


Efnisorð er vísa í ræðuna