145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

störf þingsins.

[11:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hvet til þess að við ræðum málefni hælisleitenda og annarra málefnalega og af yfirvegun. Sá vandi sem er í Evrópu er okkar vandi líka og við erum bundin af alþjóðlegum sáttmálum og viljum vera það. Þó að það skipti auðvitað miklu máli að fylgjast vel með þróun mála og læra af því sem miður hefur farið annars staðar skulum við nálgast þessa umræðu af yfirvegun.

Ég verð að furða mig á því þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kemur hingað og segir að það hafi verið skilað hallalausum fjárlögum. Ég verð bara að viðurkenna að ég kannast ekki við það í vinnu fjárlaganefndar að þau hafi verið hallalaus þegar við fengum þau. Það voru allra handa loforð sem þurfti að uppfylla. Sumu var slegið á frest, annað var reynt út af áherslum ríkisstjórnarinnar eins og í heilbrigðismálum og þá er ég að vísa til prýðisgóðra samninga sem síðasta ríkisstjórn gerði við einkaaðila í heilbrigðiskerfinu og vísa ég þá í tannlækna. Það þurfti að forgangsraða sérstaklega til að uppfylla þann samning og á sama tíma að halda hallalausum fjárlögum.

Mér líst illa á það ef menn eru núna að gíra sig upp í það, loksins þegar komið er samkomulag milli allra þeirra aðila sem að málinu hafa komið í lífeyrismálum, loksins þegar við getum verið með sambærilegan rétt milli landsmanna, hvort sem það eru opinberir starfsmenn eða í einkageiranum, mér finnst ekki góður bragur á því ef menn eru að reyna að stöðva þá vinnu. Það er búið að tala um þetta í áratugi. Loksins er komin lending, (Forseti hringir.) loksins eru þessir aðilar búnir að ná saman og það væri skelfilegt ef Alþingi Íslendinga mundi bregðast við þessar aðstæður.


Efnisorð er vísa í ræðuna