145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[11:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hér stendur fyrir dyrum atkvæðagreiðsla um mál sem ég tel að brjóti stjórnarskrána. Það liggur fyrir að stjórnskipunarfræðingar virðast orðnir sammála um að sú túlkun er rétt. Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti, hefur lýst því að hún telji að hér sé um að ræða meira framsal en stjórnarskráin þolir. Því var haldið fram hér í húsinu í gær að hún reri ein á báti í því efni. Nú er komið í ljós að Stefán Már Stefánsson, sömuleiðis prófessor í stjórnskipunarrétti og einn virtasti sérfræðingur á því sviði, tekur undir með Björgu. Hann telur að hér sé um að ræða mesta framsal á ríkisvaldi síðan við gengum í EES. Hann segir: Ég er sammála Björgu, það er ekki hægt að ganga svona frá þessu máli og það eru engar nauður sem rekur til þess. Það er enginn fundur sem stendur fyrir dyrum sem gerir það að verkum að við þurfum að klára þetta núna.

Mér finnst það vera þinginu til vansa (Forseti hringir.) að ætla hér vitandi vits að ganga til samþykktar á máli sem bæði þingmenn og sérfræðingar við Háskóla Íslands eru búnir að sýna fram á að brýtur stjórnarskrána. Við sórum eið (Forseti hringir.) að stjórnarskránni og okkur ber að halda þann eið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)