145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[11:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Framganga ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli er orðin alveg stórundarleg. Fundurinn sem átti að afgreiða málið fyrir var haldinn í morgun. Menn eru að reyna að moka hér máli í gegn óræddu og órökstuddu án þess að fá þessa virtu stjórnspekinga fyrir nefndina. Björg Thorarensen og Stefán Már Stefánsson hafa bæði lýst því yfir að þau telji þetta ekki standast stjórnarskrá.

Ég bauð á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar áðan upp á þá leið að nefndin mundi sameinast um breytingarákvæði á stjórnarskrá. Við höfum það í hendi okkar, þingkosningar eru á næsta leiti, og ég lagði fram tillögu þar um að við mundum sameinast um framsalsákvæði við stjórnarskrá sem unnt yrði að afgreiða fyrir þinglausnir með stuðningi allra flokka. Þessi tillaga fékk atkvæði allra stjórnarandstöðuflokkanna, þannig að þeir lýstu sig tilbúna í samstarf við stjórnarflokkana um framsalsákvæði sem allir gætu sætt sig við.

Málið er í höndum stjórnarflokkanna og þeir virðast einbeittir í því að ganga gegn viðvörunum þeirra fræðinga sem best (Forseti hringir.) til þekkja. Það rekur engar nauðir til þess, það er ekkert sem hastar í þessu máli umfram (Forseti hringir.) það sem þingkosningarnar gefa okkur tilefni til að hafa (Forseti hringir.) sem viðmið í þessu máli, að við getum lokið framsalsákvæði eftir kosningar.