145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[11:57]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég mótmæli þessari meðferð á jafn mikilvægu máli. Eins og komið hefur fram er engin ástæða til að vera að ýta þessu máli í gegn í dag. Það má lifa milli kjörtímabila. Nefndin sem tók málið fyrir fundaði í morgun. Þetta er ekki minnihluta-/meirihlutamál. Þetta er mál sem varðar framsal á fullveldi þjóðarinnar og fer, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði í gær, inn á blásvart svæði. Það er nóg komið af því að við séum endalaust að fara inn á grá svæði stjórnarskrár lýðveldisins. Við þingmenn sverjum eið þegar við tökum fyrst sæti hér á Alþingi um að virða þessa stjórnarskrá. Því skora ég á forseta að taka þetta mál af dagskrá samstundis.