145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[12:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er hörmulegt að þetta mál skuli vera komið í þessa stöðu og það hefur ekkert gert annað en versnað núna síðustu daga. Það hefur legið lengi fyrir, um árabil, að þetta væri í vændum og yrði alltaf mjög erfitt gagnvart íslensku stjórnarskránni. Samt erum við hingað komin. Hvernig gat þetta gerst? Þar bera þeir menn mikla ábyrgð sem hafa sóað tímanum undanfarin þrjú ár og við stöndum jafn illa að vígi og gerum í dag.

Hver er leiðsögnin sem við þingmenn sem hvorki sitjum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd né utanríkismálanefnd höfum? Hún er væntanlega álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Hvað segir þar, með leyfi forseta?

„Sumir nefndarmenn telja að málið reyni á þanþol stjórnarskrár hvað varðar fullveldisafsal og að þar reyni á ýtrustu mörk en löggjafanum sé engu að síður heimilt að kveða á um slíkt framsal. Aðrir nefndarmenn telja að hér sé gengið lengra en 2. gr. stjórnarskrár leyfi …“

Aumara getur þetta nú ekki verið. Einhver hluti hópsins, sumir og aðrir, viðurkennir að þetta reyni á ýtrustu mörk en sleppi vonandi. Hinir segja nei, það er of langt gengið. (Forseti hringir.) Þegar svo fram kemur helsta þungavigtarfólk okkar í stjórnskipunarrétti og segir: Þetta gengur of langt, þá gengur þetta of langt.