145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[12:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hvað sem líður orðum hæstv. forseta var það ekki fyrr en í dag og í fyrradag sem það lá fyrir að grundvallarágreiningur er um það innan fræðasamfélagsins hvort þetta mál stenst stjórnarskrána. Það er þá sem það kemur fyrst fram að þeir tveir stjórnskipunarfræðingar sem lögðu til að reynt yrði að útfæra lausn á málinu á grundvelli tveggja stoða leiðarinnar stíga fram og segja: Nú höfum við skoðað útfærsluna og því miður fellur hún á prófinu.

Það er fyrst í dag sem Stefán Már Stefánsson segir það og í fyrradag sem Björg Thorarensen segir það. Í því ljósi ber okkur að skoða málið miklu betur. Þingheimur er hér vitandi vits að fara að greiða atkvæði um mál og fyrir framan sig hefur hann þá staðreynd að kennarar flestra þeirra lögfræðinga sem hér sitja í salnum segja að þetta brjóti stjórnarskrána.

Hvað ætla menn þá að gera? Ætla þeir virkilega að láta (Forseti hringir.) ríkisstjórnina troða þessu máli í gegn gegn þeim eiðstaf sem þeir sóru gagnvart stjórnarskránni? Þingmenn verða að gera sér grein fyrir því hvað þeir standa frammi fyrir alvarlegum hlut. Þeir eru um það bil að fara að brjóta þann eið sem þeir sóru miðað við öll þau gögn sem lágu fyrir.