145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[12:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það að aðdragandinn hafi verið langur og álitamálin hafi verið lengi á borðinu gerir málatilbúnaðinn ekki betri. Við höfum haft nægan tíma til þess að koma okkur saman um ákvæði um framsal valdheimilda eða fara aðrar leiðir, koma á laggirnar stjórnlagadómstóli til þess að hægt sé að skera úr um hvenær lög stangast á við stjórnarskrá eða koma á fastanefnd sérfróðra aðila til að leggja slíkt mat og vera úrskurðaraðili. Við höfum haft nægan tíma til þess að bregðast við þessum álitaefnum sem hafa æ oftar komið upp á undanförnum árum. Það gerir stöðuna hreint ekki betri, herra forseti, því að það sýnir að hér hefur verið látið reka á reiðanum. Hér á Alþingi að taka ábyrgð á því að afgreiða mál sem a.m.k. tveir sérfræðingar í stjórnskipunarrétti setja fram rökstuddar efasemdir um að standist stjórnarskrá. Gott og vel. Alþingi þarf að axla ábyrgð á því máli. En hefði ekki verið hyggilegra (Forseti hringir.) að tíminn sem við höfum vissulega haft hefði verið nýttur til að koma á eðlilegum (Forseti hringir.) ferlum þannig að við gætum öll staðið að því (Forseti hringir.) að við séum að gera rétt, herra forseti?