145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[12:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Stjórnarskrárbrot verða ekkert betri þó að þau hafi verið lengi til meðhöndlunar. Stjórnarskrárbrot verða ekkert betri þó að það sé tímapressa frá einhverjum bankakörlum í Liechtenstein í málinu. Það er einfaldlega þannig að það stenst ekki stjórnarskrá Íslands að Evrópusambandið geti lokað bönkum á Íslandi. Það skiptir engu máli hvernig menn reyna að beygja, þeir komast ekki fram hjá því.

Hitt verður auðvitað að teljast algerlega ótrúlegt ef stjórnarmeirihlutinn ætlar að ganga til atkvæða um þetta eftir að fram eru komin álit stjórnskipunarprófessorsins við Háskóla Íslands og Stefáns Más Stefánssonar í morgun, án þess að kynna sér álit stjórnskipunarprófessorsins. Hér var lagt fram í morgun 20 síðna óbirt grein Bjargar Thorarensen um þessi stjórnarskrárvandkvæði. Hún var lögð fram í morgun. Ég fullyrði að meiri hluti þingmanna stjórnarflokkanna á Alþingi hefur ekki lesið það álit. (Forseti hringir.) Ætla þingmenn stjórnarflokkanna að umgangast stjórnarskrána (Forseti hringir.) þannig að lesa ekki einu sinni álit stjórnskipunarprófessorsins áður en þeir ganga til atkvæða um jafn stórt álitamál og hér er á ferðinni? (Forseti hringir.) Það er á þeirra ábyrgð.