145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[12:20]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Við notum þennan lið, fundarstjórn forseta, undir efnislega umræðu í dag í mjög takmörkuðum tíma og þess vegna ætla ég að stytta mál mitt.

Það er ljóst að skoðanir eru skiptar meðal sérfræðinga um þetta. Engu að síður, þegar lagt var af stað upphaflega, sögðum við nei, að sú leið væri ófær, að það yrði að fara tveggja stoða leið sem Evrópusambandið hefur í þessu tilviki samþykkt og aðrir aðilar í EES-samningnum. Nú erum við komin á endastöð hvað það varðar og þurfum að greiða atkvæði um það hér eins og oft áður hvort við treystum okkur til að þetta sé innan þeirra heimilda sem við höfum eður ei. Það höfum við gert oft áður og þurfum að gera enn og aftur í dag alveg óháð því hvað við ellegar hefðum getað gert á liðnum tveimur, fimm eða tíu árum.

Það er hins vegar eitt sem ég ætla að vara stórlega við og ég heyri hér, þ.e. að menn eru að tala um það undir liðnum um fagmennsku að einn, tveir og þrír verði bara skellt í það að setja valdaframsal inn í stjórnarskrá á næstu dögum. Við þurfum að leggjast mjög vel (Forseti hringir.) yfir það áður en það verður gert. Staðreyndin er sú að í mörg ár hefur verið farin leið sem að okkar mati hefur verið sú að tryggja að við (Forseti hringir.) umgöngumst stjórnarskrána af þeirri virðingu sem við þurfum að gera, en við þurfum að lokum að greiða atkvæði samkvæmt eigin samvisku um það.